Erlent

Selenskí boðar til nýrra friðarviðræðna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Aukin harka hefur færst í árásir Rússa að undanförnu.
Aukin harka hefur færst í árásir Rússa að undanförnu. AP/Vadym Sarakhan

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti vill hitta Vladímir Pútín Rússlandsforseta og freista þess að koma friðarviðræðum aftur á skrið. Leiðtogarnir hafa ekki mæst augliti til auglitis frá því að Rússland gerði innrás í Úkraínu snemma árs 2022.

Tvær tilraunir hafa verið gerðar til að koma friðarviðræðum af stað en báðar sigldu þær í strand. Þær voru haldnar í Istanbúl fyrir tilstilli tyrkneskra yfirvalda. Hvorki Selenskí né Pútín voru viðstaddir fundina en á fundinum var samið um fangaskipti.

Í ávarpi til þjóðar sinnar í kvöld sagði Selenskí að viðræður krefðust þátttöku leiðtoga stríðandi þjóðanna.

„Fundur beggja leiðtoga er nauðsynlegur til að tryggja frið - varanlegan frið,“ sagði hann.

Þegar síðast var þess freistað að koma af stað friðarviðræðum strönduðu þær á kröfum Rússa, þeirra á meðal kröfum um að Úkraína afsalaði sér landsvæði og sniðgengi hernaðarstuðning frá vesturveldum.

Þessu höfnuðu Úkraínumenn og töldu lítinn grundvöll til frekari viðræðna. Síðan hafa árásir Rússlands á lofti, láði og legi færst verulega í aukana.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur einnig fært meiri þunga í orðræðu sína í garð ráðamanna í Kremlinni. Hann hótaði þeim þungum tollum ef ekki tækist að semja um frið í Úkraínu innan fimmtíu daga. Var það fyrir fimm dögum síðan. Ljóst er þó að hótanir Bandaríkjaforseta hafi ekki sett allt á hliðina í Moskvu enda viðskiptasamband Rússlands og Bandaríkjanna ekki ýkja umfangsmikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×