Fótbolti

Segir á­rásum fjölga eftir því sem kvennaboltinn stækkar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucy Bronze segir að leikmenn hafi mátt þola æ fleiri árásir eftir því sem kvennaboltinn stækkar.
Lucy Bronze segir að leikmenn hafi mátt þola æ fleiri árásir eftir því sem kvennaboltinn stækkar. Harriet Lander - The FA/The FA via Getty Images

Lucy Bronze, varnarmaður enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir að leikmenn hafi þurft að þola enn fleiri árásir eftir því sem kvennaboltinn hefur stækkað.

Þessi ummæli Bronze koma í kjölfar þess að liðsfélagi hennar í enska landsliðinu, Jess Carter, greindi frá því að hún hafi orðið fyrir kynþáttaníð á samfélagsmiðlum. Carter sagði einnig að hún ætlaði að taka sér hlé frá miðlunum vegna þess.

Bronze, sem hefur verið í lykilhlutverki með enska landsliðinu á Evrópumótinu í Sviss í sumar, segir að þetta sé því miður slæmur fylgifiskur þess að kvennaboltinn sé að stækka.

„Eftir því sem leikurinn stækkar, því meiri hávaði verður í kringum hann og því fleiri stuðningsmenn verða til, en það heyrast líka fleiri gagnrýnisraddir,“ sagði Bronze.

„Við erum auðvitað opnar fyrir gagnrýni, og þess vegna elskum við þessa íþrótt. En við erum ekki opnar fyrir árásum. Árásir á netinu virðast vera að verða verri og verri, sérstaklega í kvennaboltanum.“

„Við sjáum þetta meira á vellinum í karlaboltanum, og einnig á netinu, en í kvennaboltanum virðist þetta vera helst á netinu. Þetta er eitthvað sem við vitum af og það er til leið til að breyta þessu. Það er til lausn. Ég er ekki með svörin við því hver hún er, en ég er viss um að hún sé til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×