Lífið

„Hefði ekki getað óskað mér fal­legri dags“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Alexandra Sif og Björn Jón giftu sig á Snæfellsnesi í júlí.
Alexandra Sif og Björn Jón giftu sig á Snæfellsnesi í júlí. Blik studio

„Ég hafði sjúklega miklar áhyggjur af veðrinu því að athöfnin okkar var úti, ég fékk smá þráhyggju fyrir því svo ég fór að rannsaka íslenska veðurgaldra og rúnir. Ég er ekki að djóka, ég risti niður nokkrar rúnir í dagbókina mína og kvað vísu sem ChatGPT bjó til handa mér og við fengum einn fallegasta daginn,“ segir hin nýgifta Alexandra Sif sem hélt glæsilegt sveitabrúðkaup á dögunum.

Alexandra Sif er fædd árið 1995, býr í New York og starfar fyrir Spotify. Hún giftist Birni Jóni Þórssyni athafnamanni, sem er sömuleiðis fæddur 1995, þann 12. júlí síðastliðinn. 

Hjúin hafa búið í Bandaríkjunum í yfir áratug og vildu sækja í íslensku ræturnar þegar það kom að giftingu en brúðkaupið var haldið á Miðhrauni á Snæfellsnesi. Alexandra ræddi við blaðamann um stóra daginn og deildi ýmsum mjög skemmtilegum sögum.

Alexandra og Bjössi áttu draumahelgi á Snæfellsnesi.Blik studio

Hvenær og hvernig trúlofuðust þið?

Bjössi bað mín 30. desember 2022 heima hjá bestu vinkonu minni en þangað hafði hann sótt mig fyrst fyrir fyrsta stefnumótið okkar á sínum tíma. Hann fékk Kristínu vinkonu mína til að plana þetta með sér.

Hún var búin að plana með mér brunch niðri í bæ með annarri vinkonu minni, kom og sótti mig og sagði að við þyrftum svo snöggvast að stoppa við heima hjá henni því hún þurfti að ná í eitthvað og ég fór með henni inn. 

Þá stóð Bjössi þar umkringdur rósum, hvítum gardínum og ljósum. Ég var sjúklega hissa og kom þetta mér allt rosalega á óvart.

Hvað voruð þið búin að vera lengi að skipuleggja stóra daginn?

Við vorum rosa afslöppuð og byrjuðum ekkert að skipuleggja strax. Við byrjuðum að halda eitt gott amerískt trúlofunarpartý í LA þar sem við bjuggum sem var alveg ótrúlega skemmtilegt.

Svo pældum við nokkrum sinnum í því að elope-a bara, það er að segja gifta okkur hjá sýslumanni í NYC en við gátum bara ekki hugsað okkur að gifta okkur án þess að hafa fólkið okkar með okkur í því.

Svo fyrir rúmlega ári ákváðum við að láta verða af þessu og fórum að skoða sali á Íslandi. Við vorum mikið að spá í að halda brúðkaupið í LA eða NYC þar sem við búum en að lokum fannst okkur svo fullkomið að gifta okkur á Íslandi og leyfa þá vinum okkar frá Ameríku að loksins upplifa landið okkar.

Hvernig var brúðkaupsdagurinn?

Systur mínar Carmen og Andrea vöktu okkur með dagblaði sem þær höfðu búið til og dreift um allt hótelið sem var svo ótrúlega sætt. Þær bjuggu sem sagt til dagblað fyrir alla brúðkaupsgesti og þær fóru eins og bréfberar um svæðið með þau.

Ég og Bjössi byrjuðum daginn á því að lesa dagblaðið okkar og hlæja og gráta yfir því. Svo fór ég í Barre tíma til Helgu Kristínar í jógasalnum á Miðhrauni. 

Hún hélt tvo tíma fyrir brúðkaupsgesti. Og svo var dansað og skálað í kampavín í lok tímans. Algjörlega fullkomin leið að byrja daginn.

Svo rölti ég yfir í bústaðinn í hár og förðun hjá snillingunum Auði og Peter. Ég gerði mig til þar með systrum mínum og mömmum. Víbrurnar hjá okkur voru æðislegar, við vorum með kampavín og afternoon tea, svo mætti ísbíllinn óvænt og við fengum okkur allar ís.

Brúðkaupsdagurinn var algjör draumur.Blik studio

Mig langar svo líka að hrósa brúðkaupsskipuleggjendunum mínum hjá Stikkfrí. Svona brúðkaup er miklu stærra dæmi en ég áttaði mig á og ég er svo þakklát fyrir það að hafa fengið Stikkfrí til þess að hjálpa okkur.

Þær voru ástæðan fyrir því að þetta brúðkaup heppnaðist svona vel og að ég gat verið í jóga og borðað ís með systrum mínum á brúðkaupsdaginn.

Voruð þið sammála í skipulaginu?

Já við vorum sem betur fer frekar samstíga í öllu ferlinu. Við vildum bæði skapa svona dinner party stemningu. Góður matur, gott vín, chillað og heimilislegt væb og allir sem við elskum saman undir einu þaki.

Hjónin voru umkringd þeirra allra besta fólki.Blik studio

Voruð þið harðákveðin að vera á Íslandi?

Alls ekki fyrst - við skoðuðum það að gifta okkur á uppáhalds vínekrunni okkar í Kaliforníu eða á sætum veitingastað í NYC. 

Við vorum næstum því búin að læsa því í New York en hefðum þurft að bjóða bara um fimmtíu manns. Þegar við fórum að reyna að skrifa þann gestalista þá bara gekk það ekki upp.

Svo fannst okkur líka svo fullkomið að gifta okkur heima og leyfa vinum okkar frá Ameríku að koma að sjá heimalandið okkar. Og svo frábært að geta loksins blandað öllum vinum okkar og fjölskyldu saman á einn stað á Íslandi.

Þess vegna völdum við líka sveitahótel út á landi í staðin fyrir að vera í bænum því að þá hefðu Ameríkanarnir verið þeir einu sem gistu á hóteli og Íslendingarnir farið heim til sín.

Okkur fannst svo skemmtilegt að hafa alla saman upp í sveit heila helgi svo allir gætu kynnst almennilega og eytt tíma saman.

Voruð þið með dagskrá aðra daga en á brúðkaupsdaginn?

Já á fimmtudeginum fyrir brúðkaup þá vorum við með smá welcome-partý á Röntgen fyrir þá sem að komu utan frá. Okkur fannst mikilvægt að leyfa ameríkönunum að upplifa Reykjavík aðeins áður en við fórum með þau heila helgi upp í sveit. Ég og Bjössi byrjuðum kvöldið á Sumac og gistum á ION City, fullkomið Reykjavíkur kvöld.

Þetta fyrsta kvöld var ég í outfitti sem ég púslaði saman með systrum mínum deginum áður. Keypti mér slá frá íslenska merkinu As We Grow, hvítan kjól frá HM, var svo í blúndu sokkabuxum frá Swedish Stocking og hvítum Nine West hælaskóm sem ég átti heima.

Svo á föstudaginn vorum við með móttökupartý fyrir alla gesti á Miðhrauni. Grill, bál, sykurpúðar og sungið langt fram eftir kvöldi. Við vorum með svokallað country-chic þema, smá íslenska sumarkonan og var svo gaman að sjá klæðnaðinn hjá öllum.

Ég var í Paco Rabanne kjól, Jimmy Choo boots og lopapeysu sem mamma prjónaði handa mér.

Hvaðan sóttuð þið innblástur?

Við erum búin að fara í fjögur brúðkaup á þessu ári og fórum í fimm í fyrra þannig ég var alltaf að spá og spekúlera sem gestur í þeim brúðkaupum. Ég fór í brúðkaup í maí sem mér fannst svo fallegt að ég fékk Blómahönnun til að algjörlega breyta stefnunni á blómunum í brúðkaupinu okkar.

Ég var sömuleiðis mjög mikið á Pinterest, fylgdi svo anti bride og Vogue weddings á samfélagsmiðlum og sótti innblástur úr öllum áttum. 

Mér fannst þó alltaf mikilvægast að láta Internetið ekki hafa of mikil áhrif á þær ákvarðanir sem við tókum því ég vildi passa að brúðkaupið væri alveg í okkar stíl.

Hvað stendur upp úr?

Ég og Bjössi höfum bæði búið í Bandaríkjunum í yfir tíu ár og eigum fjölskyldu og vini út um allt. Við höfum aldrei áður haft allt fólkið okkar á sama stað og sama tíma og okkur fannst það standa svo upp úr.

Ég sá amerísku vinkonu mína sem ég hef þekkt í tíu ár hitta loksins vinkonu mína frá barnsaldri á spjalli með herbergisfélaga Bjössa úr bandarískum menntó og það var svo magnað.

Bjössi og Lexa pössuðu upp á að hafa brúðkaupið algjörlega í þeirra stíl.Blik studio

Okkur fannst þetta bara vera svo mikið svona algjör sameining á okkar lífum og við fengum að sjá hvað við höfum safnað að okkur mikið af góðu fólki yfir árin.

Eitt annað smá fyndið. Ég hafði sjúklega miklar áhyggjur af veðrinu því að athöfnin okkar var úti. Mig langaði svo að Ameríkanarnir fengju að sjá alvöru fallegan íslenskan sumardag.

Ég fékk smá þráhyggju fyrir því svo ég fór að rannsaka íslenska veðurgaldra og rúnir. Ég er ekki að djóka, ég risti niður nokkrar rúnir í dagbókina mína og kvað vísu sem chat gpt bjó til handa mér og við fengum einn fallegasta dag sem ég hefði getað óskað mér. 

Ég er ennþá í sjokki. Á einum tímapunkti í athöfninni horfði ég á Bjössa og sagði ómægad mér er svo heitt! 

Ég er ekki að segja að ég sé norn… en það var rigning daginn fyrir og eftir brúðkaupið.

Það er svo bara ómögulegt að velja eitthvað eitt, Inspector Spacetime tróð upp um kvöldið og það var svo geggjað.

Alexandra lærði nokkra galdra í von um að hafa áhrif á veðrið, sem var fullkomið. Hjúin dönsuðu svo fram eftir nóttu við grípandi tóna danssveitarinnar Inspector Spacetime.Blik studio

Sáu einhverjir um veislustjórn og voru skemmtiatriði?

Kristbjörg besta vinkona mín og Steinar besti vinur Bjössa voru veislustjórar og þau stóðu sig svo vel. Þau byrjuðu veisluna á því að syngja frumsamið lag sem var geggjuð leið að byrja partýið. 

Svo spilaði Viktor bróðir minn Þessi Fallegi Dagur á píanóið. Það tóku allir undir og voru farnir að öskursyngja í lokin. Svo gaman.

Svo verð ég að segja frá laginu sem vinkonur mínar tóku í athöfninni. Ég á tvær vinkonur sem eru tónlistarkonur, Ragnhildur í Flott og Sigfríð, Frid Music, og þær sungu saman lag fyrir okkur í athöfninni. 

Þær hafa aldrei sungið áður saman og þetta var fallegast í heimi og eitt af því sem virkilega stóð upp úr.

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart?

Það kom mér á óvart hvað ég var stressuð þegar það kom að augnablikinu að ganga niður til Bjössa. Pabbi kom tilbúinn og sótti mig og ég var allt í einu farin að skjálfa. 

Ég hef ekki hugmynd af hverju tilfinningarnar mögnuðust svona upp þegar það var komið að þessu. Ætli það sé ekki bara því maður er búinn að ímynda sér þetta svo lengi og svo allt í einu er það bara að gerast.

Svo kom líka á óvart hvað þetta er fljótt að líða. Við eyddum öllum þessum tíma í að plana og svo bara kom þetta og fór.

Hvað voru margir gestir?

Um 135 gestir.

Hvernig gekk að velja kjólinn? Hvað fannst þér vega mest í því ferli?

Það var ótrúlega skemmtilegt ferli. Ég fór amerísku leiðina og fór í fullt af amerískum boutiques með vinkonum mínum þar sem við drukkum kampavín og ég mátaði kjóla eins og dúkka. Mér fannst samt allir kjólar sem ég mátaði annað hvort ljótir eða alltof dýrir.

Ég var búin að búa til smá innblásturs möppu og vissi næstum hvað ég vildi, sem var í anda Ariönu Grande á Met gala. Ég var svo á vappi bara ein um Soho hverfið í New York, kíkti í eina búð og fann þá kjólinn. 

Ég get verið ótrúlega óákveðin og þar sem þetta var fyrsti kjóllinn sem mér leið vel í og fannst flottur og þá ákvað ég bara að kaupa hann á staðnum. Svo hjálpaði Margrét Unnur stílisti mér að leita uppi vintage Manolo Blahnik skó.

Kjóllinn var stórglæsilegur.Blik studio

Ég eyddi heilmiklum tíma að skoða vintage búðir fyrir móttökupartýið og eftirpartýið. Ég var aðeins spenntari fyrir þeim lúkkum því mér fannst ég vera með aðeins meira frelsi til að prófa eitthvað öðruvísi þar. 

Mig langaði í hefðbundinn brúðarkjól því eg fæ aldrei aftur tækifæri í að klæðast svoleiðis - en svo gat ég notað hin outfittin til að vera aðeins tilraunakenndari.

Ég fann geðveika bláa vintage Armani dragt í Happy Isles í New York. Blár er uppáhalds liturinn minn og ég er mikið fyrir strúktúraða blazera og elska bara góð snið. Ég eyddi alltof miklum tíma með klæðskera í Mid Town í New York að sníða dragtina alveg að mér. 

Svo fann ég glænýja ónotaða bláa Louboutin skó á síðunni The RealReal sem mér fannst passa fullkomlega. Carmen systir mín keypti svo diskó glimmer skikkju í vintage búð í New Orleans til að partýja lúkkið aðeins upp.

Eftirpartýslúkkið var algjör negla!Blik studio

Ertu með eitthvað gullið ráð fyrir verðandi hjón sem eru að skipuleggja brúðkaup?

Þetta mun líða hjá alltof fljótt. Allt í einu verður brúðkaupið búið. Muna að njóta ferilsins eins mikið og þið getið.

Og ekki nota Pinterest eða samfélagsmiðla of mikið þegar þú ert að fá innblástur. Mér fannst það ótrúlega oft yfirþyrmandi að skoða þessi æðislegu brúðkaup sem ég sá á netinu, fékk stundum mega minnimáttarkennd og fór eitthvað að reyna að breyta og bæta á seinustu stundu. 

Brúðkaupsdagurinn flaug algjörlega hjá.Blik studio

Munið bara að þetta er brúðkaupið ykkar fyrir ykkur og takið ákvarðanir byggðar á ykkar smekk.

Fóruð þið í brúðkaupsferð?

Já, ég er einmitt að skrifa svörin í flugvélinni á leið heim frá Ítalíu. Við plönuðum draumaferð til Tuscany sem að var æðisleg, en ég var ógeðslega veik alla ferðina og uppgötvaði það á degi fimm að ég væri með streptókokka. 

Þá fékk ég loksins sýklalyf með því að tala við lækni á doctorsinitaly.com. Þannig ég myndi bara eiginlega ekki mæla með að fara í brúðkaupsferð beint eftir brúðkaup, lærið frá mínum mistökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.