Innlent

Marg­menni kom saman á hungurgöngu

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Margmenni kom saman í miðbæ Reykjavíkur til að vekja athygli á ástandinu á Gaza.
Margmenni kom saman í miðbæ Reykjavíkur til að vekja athygli á ástandinu á Gaza. vísir

Margmenni kom saman í svokallaðri hungurgöngu í miðbæ Reykjavíkur til að vekja athygli á hungursneyð á Gaza-ströndinni og krefjast aðgerða frá íslenskum stjórnvöldum.

Ísraelsher tilkynnti í dag að hann hyggist gera tíu klukkutíma hlé á hernaðaraðgerðum á þremur landsvæðum á Gaza daglega svo að þangað geti borist matvæli og önnur hjálpargögn. 

Hungursneyð hefur ríkt á svæðinu og samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Palestínu hafa rúmlega 130 dáið úr hungri síðan átök þar hófust 7. október 2023. Þar af 85 börn. Þá var lest vöruflutningabíla með hjálpargögnum ekið inn á Gaza í morgun í gegnum landamærastöðina í Rafah en Jórdanía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa staðið fyrir loftflutningi hjálpargagna. Töluvert mannfall hefur orðið í Palestínu í dag og þar með talið við dreifingarstöðvar hjálpargagna.

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísreals sakaði Sameinuðu þjóðirnar um lygar í myndbandstilkynningu í dag og sagði ávalt hafa verið greiða leið inn á Gaza fyrir mannúðaraðstoð.

Svokölluð hungurganga fór fram samtímis í Reykjavík og á Akureyri í dag til að mótmæla ástandinu á Gaza. Í Reykjavík kom fólk saman við Hlemm og gekk niður Laugaveg í átt að Stjórnarráðinu og lét vel í sér heyra. Mótmælendur kröfðust þess að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða vegna ástandsins.

„Aðgerða er þörf. Við viljum viðskiptaþvinganir á Ísrael, við viljum slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael. Við viljum að sjálfsögðu að Ísland sé hluti af Haag-hópnum. Sem er að styðja kæru Suður-Afríku á hendur Ísraels,“ sagði María Lilja Ingveldar Þrastardóttir Kemp mótmælandi á svæðinu.

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir, einn skipuleggjanda mótmælanna, segir stjórnvöld hér á landi geta gert ýmislegt til að bregðast við ástandinu.

„Aðgerða er þörf. Við viljum viðskiptaþvinganir á Ísrael, við viljum slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael. Við viljum að sjálfsögðu að Ísland sé hluti af Haag-hópnum. Sem er að styðja kæru Suður-Afríku á hendur Ísraels.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×