Enski boltinn

Nýtt undra­barn hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal vonast örugglega til að sjá miklu meira af hinum fimmtán ára Max Dowman á komandi tímabili eftir tilþrifin sem strákurinn sýndi um helgina.
Stuðningsmenn Arsenal vonast örugglega til að sjá miklu meira af hinum fimmtán ára Max Dowman á komandi tímabili eftir tilþrifin sem strákurinn sýndi um helgina. Getty/David Price

Þetta var góð helgi fyrir Arsenal því félagið er loksins kominn með alvöru níu eftir kaupin á Viktor Gyökeres. Liðið vann líka sigur á Newcastle United og heldur því áfram að vinna leiki sína á undirbúningstímabilinu. Þrátt fyrir þetta eru margir stuðningsmenn Arsenal að ræða allt annað eftir þessa helgi.

Hinn fimmtán ára gamli Max Dowman sló nefnilega algjörlega í gegn í innkomu sinni í leik helgarinnar.

Táningurinn kom inn á sem varamaður í 3-2 sigri á Newcastle og spilaði eftirminnilegar þrjátíu mínútur.

Hann endaði á því að fiska vítaspyrnuna sem Martin Ödegaard skoraði sigurmarkið úr. Það gerði Dowman eftir frábæran sprett þar sem hann sýndi tækni sína og sprengikraft með því að labba framhjá varnarmönnum og búa til mikið úr nánast engu.

Stuðningsmenn Arsenal hafa örugglega fyrir löngu heyrt um hinn stórefnilega Dowman en hann var of ungur til að spila með aðalliðinu á síðasta tímabili.

Dowman fæddist 31. desember 2009 og verður því ekki sextán ára fyrr en á síðasta degi ársins. Hann var aðeins þrettán ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik með átján ára liði Arsenal.

Hann er sókndjarfur miðjumaður sem getur spilað sem tía eða út á hægri væng. Hann er líka spyrnumaður góður og hefur verið að taka horn og aukaspyrnur með yngri liðum Arsenal. Miðað við tilþrifin sem hann sýndi í gær þá er augljóst að það er sannkallað undrabarn í Arsenal liðinu.

Nú er Dowman orðinn nógu gamall og hefur komið inn á í síðustu tveimur leikjum liðsins á undirbúningstímabilinu.

Þetta gæti því verið annað tímabilið í röð þar sem Arsenal fær öflugan leikmann inn í liðið úr unglingastarfinu en á síðasta tímabili var það bakvörðurinn Myles Lewis-Skelly sem sló í gegn og vann sér ekki aðeins sæti í byrjunarliði Arsenal heldur einnig sæti í enska landsliðinu. Hann er enn bara átján ára en orðinn lykilmaður í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×