Erlent

Gera tíu klukku­stunda „mannúðarhlé“ á á­rásum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einhverjir gátu náð sér í hveiti í Zikim í gær.
Einhverjir gátu náð sér í hveiti í Zikim í gær. Getty/Anadolu/Dawoud Abo Alkas

Stjórnvöld í Ísrael hafa tilkynnt að þau hyggist nú gera hlé á aðgerðum sínum tíu klukkustundir daglega í ótilgreindan tíma, til að greiða fyrir flutningi og dreifingu hjálpargagna á Gasa.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa fagnað ákvörðuninni en segja hana ekki munu duga til að leysa öll þau vandamál sem íbúar svæðisins standa frammi fyrir. 

BBC hefur eftir Tom Fletcher, sem fer fyrir neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, að ákvörðun Ísraelsmanna feli meðal annars í sér að matur, lyf og eldsneyti muni flæða greiðlegar yfir landamærin frá Egyptalandi.

Hann bendir hins vegar á að þörf sé á gríðarlegu magni neyðargagna til að koma í veg fyrir hungursneyð og almennt neyðarástand á svæðinu. Langtímaúrræða sé þörf. „Og engar frekari árásir á fólk sem safnast saman til að ná sér í mat,“ segir hann.

Hléið á aðgerðum mun standa yfir frá því klukkan tíu á morgnana og fram til klukkan átta á kvöldin og ná til þriggja þéttbýlustu svæða Gasa; Gasa-borgar, Deir al-Balah og Muwasi.

Athygli vekur hins vegar að forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu virtist gera lítið úr ákvörðuninni í yfirlýsingu og sagði Ísraelsmenn neyðast til að leyfa „lágmarks“ aðstoð inn á svæðið.

Íbúar Gasa eru sagðir hóflega bjartsýnir varðandi þetta nýja útspil Ísrael, að það muni ná að breyta þeirri hörmulegu stöðu sem komin er upp á svæðinu. 

Talsmenn World Food Program virtust öllu jákvæðari og sögðu nægan mat á leiðinni til að fæða íbúana í þrjá mánuði. Vopnahlés væri hins vegar þörf til að ná til allra á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×