Golf

Donald Trump sást svindla á golf­vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti sést hér spila golf á Turnberry golfvellinum í Skotlandi sem er golfvöllur sem hann á sjálfur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sést hér spila golf á Turnberry golfvellinum í Skotlandi sem er golfvöllur sem hann á sjálfur. Getty/Christopher Furlong

Donald Trump Bandaríkjaforseti er staddur í Skotlandi í opinberri heimsókn en hún snerist reyndar að stórum hluta um golfvöllinn hans og kynningu á honum. 

Trump á golfvöll í Skotlandi en það er Turnberry golfvöllurinn sem hann keypti löngu áður en hann varð forseti.

Trump var auðvitað duglegur að auglýsa golfvöllinn sinn í ferðinni til Skotlands og fjölmiðlar fylgdu honum þangað. Það kom heldur ekki annað til greina en að spila einn hring.

Þar komst upp um Trump því hann sást svindla fyrir framan myndavélarnar. Skoskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um þetta svindl Trump á golfvellinum.

Trump hefur aldrei verið talinn sá heiðarlegasti og lengi hefur verið sterkur orðrómur um það að hann sé að hafa rangt við á golfvellinum. Meðal þeirra sem hafa ásakað hann um svindl í golfi er bandaríski leikarinn Samuel L. Jackson.

Skosku fjölmiðlarnir komust því í feitt þegar þeir gómuðu Trump við að svindla.

Kylfusveinninn hans Oddjob Slazenger sást þá láta bolta falla lúmskt í jörðina og færa hann í betri stöðu fyrir sinn yfirmann.

„Þetta myndband af kylfusveini Trump er ekkert stórmál. Það að Trump svindli í golfi er ekki nálægt því að vera það versta frá honum,“ skrifaði Tom Nichols í The Atlantic.

Trump elskar að spila golf og hann var í golfi í að minnsta kosti 45 daga af fyrstu 189 dögum hans sem forseti eða 24 prósent daganna.

Það kostar líka bandarísku þjóðina milljónir að fara með hann og hans föruneyti í golf því gríðarlega öryggisgæslu þarf til hvert sem hann fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×