Íslenski boltinn

KR lætur þjálfara­t­eymið fjúka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Páll Kristjánsson, þáverandi formaður Knattspyrnudeildar KR, Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson þegar þeir voru kynntir sem nýir þjálfarar meistaraflokks kvenna.
Páll Kristjánsson, þáverandi formaður Knattspyrnudeildar KR, Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson þegar þeir voru kynntir sem nýir þjálfarar meistaraflokks kvenna. KR

Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson eru ekki lengur þjálfarar kvennaliðs KR í knattspyrnu. Liðið er sem stendur í 5. sæti Lengjudeildar kvenna.

Gunnar og Ívar stýrðu KR upp úr 2. deildinni á síðustu leiktíð og liðið því nýliði í Lengjudeild kvenna í ár. Þegar 12 umferðir af 18 eru búnar er liðið í 5. sæti með 19 stig með markatöluna 27-29. Liðið er sex stigum frá HK í 2. sætinu sem og sex stigum frá Haukum í 8. sætinu.

Knattspyrnudeild KR greinir frá því í kvöld, mánudag, að þeir Gunnar og Ívar hafi verið látnir taka poka sinn.

„Stjórn knattspyrnudeildar KR hefur tekið ákvörðun um að gera breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks kvenna,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er fráfarandi þjálfurum þakkað fyrir „samstarfið og þeirra framlag til uppbyggingar kvennaknattspyrnunnar í KR.“

Að endingu kemur fram að Jamie Brassington, markvarðarþjálfari bæði meistaraflokks karla og kvenna, muni stýra liðinu út leiktíðina. Það verður þó að sama skapi tilkynnt um ráðningu nýs þjálfara á næstunni.

Næsti leikur KR er útileikur gegn Fylki þann 7. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×