Enski boltinn

Sænska lands­liðs­konan Zigiotti til liðs við Rauðu djöflana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julia Zigiotti Olme í leik Svíþjóðar og Englands á Evrópumóti kvenna í sumar.
Julia Zigiotti Olme í leik Svíþjóðar og Englands á Evrópumóti kvenna í sumar. EPA/GAETAN BALLY

Julia Zigiotti Olme hefur samið við Manchester United til næstu tveggja ára með möguleika á eins árs framlengingu. Hún lék síðast með Glódísi Perlu Viggósdóttur hjá Bayern München þar sem liðið varð Þýskalands- og bikarmeistari á síðustu leiktíð.

Hin 27 ára gamla Zigiotti er varnartengiliður sem þekkir vel til ensks fótbolta eftir að leika með Brighton & Hove Albion frá 2022-24. Þar áður lék hún fyrir AIK, Hammarby og BK Häcken í heimalandinu.

Jafnframt á Zigiotti að baki 48 A-landsleiki fyrir Svíþjóð og var hún hluti af liði Svía á nýafstöðnu Evrópumóti. Skoraði hún til að mynda úr einni af vítaspyrnum Svíþjóðar þegar liðið mátti þola naumt tap fyrir verðandi Evrópumeisturum Englands eftir hádramatíska vítaspyrnukeppni.

„Ég er svo glöð að vera hér, hlakka til að hefjast handa og vera hluti af Man United fjölskyldunni. Ég hef fylgst með liðinu undanfarin ár og finnst mikið til þess koma. Þetta er lið sem hentar mér og mínum leikstíl,“ sagði Zigiotti við undirskriftina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×