Innlent

Há­vaða­rok á Snæ­fells­nesi og Faxa­flóa

Samúel Karl Ólason skrifar
Gul viðvörun verður í gildi á vestanverðu landinu í dag.
Gul viðvörun verður í gildi á vestanverðu landinu í dag. Veðurstofa Íslands

Gul veðurviðvörun er í gildi á Faxaflóa og Breiðafirði vegna hvassrar sunnanáttar. Á Breiðafirði tók viðvörunin gildi kukkan níu en klukkan tíu á Faxaflóa. Búast má við sunnan þrettán til 23 metrum á sekúndu og hviðum á bilinu 25-30.

Hvassast er á norðanverðu Snæfellsnesi, þar sem búast má við snörpum vindhviðum. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að vindhviður á norðanverðu Snæfellsnesi gætu náð allt að fjörutíu metrum á sekúndu.

Veðrið er sérstaklega varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind og segja veðurfræðingar Veðurstofu Íslands að varasamt gæti verið að aka slíkum bílum um svæðið.

Veðrið á að ganga niður síðdegis og í kvöld.

Búast má við rigningu eða skúrum í flestum landshlutum en stytta á upp á Norður- og Austurlandi með morgninum.

Hiti er á bilinu tíu til tuttugu stig, hlýjast er á Norðausturlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að djúp lægð á Grænlandshafi stjórni veðrinu hér á landi í dag. Skil frá henni hafi valdið slagviðri víða um land í gærkvöldi og í nótt en þau fjarlægist nú hratt.

Lægðin sjálf hreyfist þó lítið. Á morgun verði hún fyrir norðvestan land og grynnist hún smám saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×