Íslenski boltinn

„Hefðum ekki átt að tapa þessum leik“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Halldór Snær gekk í raðir KR fyrir tímabilið.
Halldór Snær gekk í raðir KR fyrir tímabilið. Vísir/Diego

Halldór Snær Georgsson, markvörður KR-inga var öflugur á milli stanganna þegar KR mátti þola enn eitt tapið í Bestu deild karla í fótbolta. Nú gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Átti Halldór Snær nokkrar afbragðs vörslur sem dugðu þó ekki til í dag þar sem Eyjamenn skoruðu í blálokin.

„Þetta er ekki nógu gott hjá okkur og við hefðum ekki átt að tapa þessum leik. Við verðum að dekka menn í teignum, hann stendur einn inni í teig. Við vorum ekki nógu beittir í dag og vorum að tapa boltanum of mikið, og ég held það hafi farið með okkur,“ sagði Halldór Snær svekktur að leik loknum.

„Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en mér fannst seinni hálfleikurinn alls ekki nógu góður. Við vorum að tapa boltanum allt of mikið, ég man ekki eftir mörgum færum sem við fengum. Við vorum að fá allt of mikið af skyndisóknum á okkur af því að við vorum að missa boltann, þetta var bara alls ekki nógu gott.“

Þjóðhátíðarstemning ríkti á vellinum og létu stuðningsmenn beggja liða vel í sér heyra.

„Mig langar að hrósa stuðningsmönnum, þeir voru geggjaðir. Þeir sungu allan leikinn og eru enn þá hérna eftir leik að syngja og tralla. Stuðningurinn er bara geggjaður og allt hrós á þá.“

Þrjú mikilvæg stig töpuð í þessum leik fyrir KR-inga sem sitja enn þá, eftir leikinn í næst neðsta sæti með 17. stig.

„Það er dýrt að tapa þessum leik, en við verðum að halda áfram. Þetta var ekki nægilega gott í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×