Enski boltinn

Vill vera hjá Man United næstu tvo ára­tugina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hafði sjaldan ástæðu til þess að fagna.
Hafði sjaldan ástæðu til þess að fagna. Shaun Botterill/Getty Images

Ruben Amorim, hinn fertugi þjálfari Manchester United, hefur sagt að hann vilji vera hjá félaginu næstu 20 árin. Hann veit jafnframt að liðið þarf að byrja tímabilið vel ef ekki á illa að fara.

Amorim átti ekki sjö dagana sæla eftir að hann tók við Man United á síðustu leiktíð. Liðið komst í úrslit Evrópudeildarinnar þar sem það tapaði 1-0 fyrir Tottenham Hotspur. Fram að því hafði liðið ekkert getað í ensku úrvalsdeildinni og liðið í raun heppið hvað liðin þrjú sem féllu voru léleg.

Nú er tíðin önnur, Amorim er að móta leikmannahóp sinn og virðist spenntur fyrir því sem koma skal. Hann ræddi við fjölmiðla fyrir æfingaleik kvöldsins gegn Everton.

„Ég vill vera hér í 20 ár. Það er markmið mitt og ég virkilega trúi að það geti gerst. Eitthvað mun gerast. Það kemur tími þar sem ég verð heppinn, ég hef verið mjög heppinn á ferli mínum. Hugmynd mín er að vera hjá félaginu til margra ára.“

„Að því sögðu þá munu úrslit liðsins stýra því. Ég veit að ég á ekkert inni eftir síðasta tímabil en ég er klár í að byrja upp á nýtt. Ég vill vera þjálfari Manchester United til lengri tíma. Ég tók fimm ár í að velja félagið svo ég vil ekki að mér mistakist.“

„Ef þú horfir á tíma minn með Sporting var það eins. Eftir þrjá mánuði sögðu allir að ég væri á leið út. Það sögðu allir að ég ætti þrjú prósent möguleika á að vinna einn titil með Sporting. Þetta var alveg eins.“

Allir 380 leikirnir í ensku úrvalsdeildinni verða sýndir á rásum Sýn Sport.

Hér má tryggja sér áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×