Innlent

Færa sig í Kringluna vegna bílastæða­skorts og fram­kvæmda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Blóðbankinn hefur verið til húsa við Snorrabraut síðastliðin 15 ár.
Blóðbankinn hefur verið til húsa við Snorrabraut síðastliðin 15 ár. Vísir/Sigurjón

Blóðbankinn mun flytjast í Kringluna í haust, en framkvæmdir og skortur á bílastæðum við núverandi húsnæði eru tekin að aftra móttöku blóðgjafa, að sögn yfirlæknis. 

Sem stendur er blóðbankinn til húsa við Snorrabraut 60 í Reykjavík. Blóðsöfnunarhluti blóðbankans, sá hluti sem almenningur mætir í til þess að gefa blóð, verður fluttur í Borgarkringluna.

„En aðrir hlutar starfseminnar eins og blóðhlutavinnslan, rannsóknir, lagerhald og afgreiðsla, það er áfram í Blóðbankanum við Snorrabraut,“ segir Þorbjörn Jónsson, yfirlæknir blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítalans.

Aðkoman erfiðari en í upphafi

Töluvert hefur verið um framkvæmdir við núverandi húsnæði bankans á síðustu árum, auk þess sem bílastæðum hefur fækkað og sum þeirra verið gerð gjaldskyld.

„Þannig að aðkoma hefur verið erfiðari en hún var þegar við fluttum fyrir fimmtán árum. Það mun stórbreytast og aðkoma blóðgjafa verður mun þægilegri í Kringlunni.“

Fyrirmynd að flutninginum sé til á Akureyri, þar sem blóðbankinn hafi verið færður af sjúkrahúsinu og yfir á Glerártorg.

„Það hefur bara gengið ljómandi vel. Við bindum vonir við að þetta verði framför fyrir okkar starfsemi og þægilegra fyrir blóðgjafana.“

Verið sé að byggja rannsóknarstofuhús Landspítalans við Hringbraut, en Blóðbankinn er hluti af rannsóknarþjónustu spítalans.

„Ég held að tíminn verði bara að leiða það í ljós hvort þetta er varanleg lausn eða tímabundin,“ segir Þorbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×