Innlent

Simmi lýsir ára­löngu umsáturseinelti: Sat um hann í bílakjallara

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigmar segir sér hafa hætt að lítast á blikuna.
Sigmar segir sér hafa hætt að lítast á blikuna. Vísir/Vilhelm

Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður lýsti langvarandi áreitni og umsáturseinelti af hálfu konu í hlaðvarpi sínu á dögunum. Hann segir eltihrelli hafa ofsótt hann undanfarin þrjú ár, setið um hann í bílakjöllurum, bankað upp á heima hjá honum og áreitt kærustu hans og vini.

Sigmar ræddi áreitið í Reykjavík síðdegis í dag en hann upplifir sig hálfráðalausan frammi fyrir áreitinu. Það sé hálfvandræðalegt fyrir karlmann að kveinka sér undan því að kona sem hann hefur talsverða líkamlega yfirburði yfir áreiti hann en einhvers staðar verði að staðar nema og segja: nú er nóg komið.

Hætt að lítast á blikuna

Hann segist aldrei hafa upplifað það áður að honum sé hætt að lítast á blikuna í slíkum aðstæðum.

„Maður veit ekkert í hvaða sálræna hugarástandi viðkomandi er, hvers viðkomandi grípur til næst,“ segir Sigmar.

Umrædd kona segist Sigmar hafa kynnst þegar fyrirtæki í hans eigu átti í viðskiptum við fyrirtæki sem hún starfaði hjá. Þar af leiðandi vann þessi kona óbeint fyrir Sigmar en hann undirstrikar að hann hafi ekki átt í neinum beinum samskiptum við hana. Hafi þau verið einhver hafi þau verið vinnutengd og í mýflugumynd.

„Þetta lýsir sér þannig að hún vill meina að við tengjumst á kynferðislegan hátt einhvers staðar uppi í stjörnuhvolfinu. Það er einhvern veginn það sem hún gengur um með í maganum,“ segir hann.

Áreitið birtist á ýmsan hátt. Sigmar segir eltihrellinn hafa áreitt sig, kærustu sína og vini á netinu, bankað upp á heima hjá sér og í einu sérstaklega óhugnanlegu tilfelli setið um hann í bílakjallaranum þegar hann kom úr útvarpsviðtali á Bylgjunni. Síðast hafi hún látið á sér kræla fyrir rúmri viku síðan eftir um tíu mánaða hlé.

Hálfvandræðalegt að leita sér aðstoðar

Sigmar segist hvergi hafa leitað sér aðstoðar þó margir hafi bent honum á að hegðun konunnar sé óásættanleg. Hann segir það hafa hvarflað að sér að hringja í neyðarlínuna eða farði í Bjarkarhlíð.

„Og þá kom upp þessi hugmynd: „er ég hérna 115 kílóa maðurinn að fara að rölta inn í Bjarkarhlíð til að kveinka mér undan konu sem ég líkamlega hef yfirburði yfir en er samt að valda mér þessum óþægindum?“ Ég veit ekki. Mér finnst þetta svo skrítið,“ segir hann.

„Manni finnst þetta einhvern veginn vandræðalegt,“ bætir hann við.

Sigmar segist hafa beðið umrædda konu margítrekað um að láta hann vera en að hún taki ekki sönsum.

„Þetta hefur skapað óþægindi og svo fer maður að hugsa hvað ef þetta stækkar. Er ég að gera mér óleik með því að ræða þetta við ykkur núna? Kannski voru það algjör mistök að láta þetta flakka í hlaðvarpinu,“ segir Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×