Enski boltinn

Dag­ný kveður West Ham með tárin í augunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það var tilfinningaþrungið fyrir Dagnýju að kveðja.
Það var tilfinningaþrungið fyrir Dagnýju að kveðja. West Ham

„Þegar ég var ung bjóst ég aldrei við að geta spilað fyrir West Ham,“ segir landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir sem kveður í dag félagið sem hún hefur stutt frá æsku.

Dagný samdi við West Ham fyrir fjóru og hálfu ári síðan og hefur borið fyrirliðabandið hjá liðinu. West Ham tilkynnti á miðlum liðsins í dag að Dagný yfirgæfi félagið. Liðið birti samhliða því viðtal við Dagnýju og það tók bersýnilega á hana að kveðja félagið sem hún hefur stutt frá æsku.

„Þegar einhver segir West Ham United við mig er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann: Fjölskylda. Ég kom með fjölskyldu mína hingað og félagið hefur sýnt svo mikinn stuðning. Þegar þú kynnist fólkinu og leikmönnunum hér er þetta eins og ein stór fjölskylda,“ segir Dagný meðal annars.

Dagnú er 33 ára gömul og spilaði 87 leiki fyrir West Ham á tíma sínum með liðinu í Lundúnum. Hún var valin besti leikmaður liðsins árið 2023 og eignaðist soninn Andreas á meðan hún var leikmaður liðsins.

Áður hefur Dagný leikið fyrir KFR, Val og Selfoss hér heima, auk Bayern Munchen í Þýskalandi og Portland Thorns í Bandaríkjunum.

Hún var hluti af liði Íslands á EM í Sviss í sumar og hefur skorað 38 mörk í 113 landsleikjum fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×