Fótbolti

Ingi­björg Lúcía: Það var góð bar­átta í okkur og mikil liðs­heild

Árni Jóhannsson skrifar
Ingibjörg í leik með Stjörnunni í sumar.
Ingibjörg í leik með Stjörnunni í sumar. Vísir/Anton Brink

Fyrsti markaskorari Stjörnunnar í kvöld í 3-0 sigri þeirra á Tindastól, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, gat verið mjög ánægð með leikinn í kvöld. Hún var mjög fegin að sjá boltann í netinu en hafði látið verja oft frá sér í sumar.

Þrjú mörk, þrjú stig og að halda hreinu hlýtur að vekja góðar tilfinningar og var Ingibjörg spurð út í þær tilfinningar skömmu eftir leikinn.

„Hún er bara mjög ljúf. Eins og þú segir, þrjú mörk og þrjú stig. Það gerist ekki betra.“

Hvað voru Stjörnukonur að gera rétt í þessum leik?

„Ég mundi bara segja að það var góð barátta í okkur og mikil liðsheild. Við bökkuðum hvor aðra upp allan tímann. Það var 0-0 í hálfleik og nóg eftir og við bara héldum áfram.“

Var eitthvað sérstakt rætt í hálfleik. Staðan 0-0 en flóðgáttirnar opnuðust í síðari hálfleik.

„Nei, bara að halda áfram. Leikurinn er 90 mínútur og mér fannst við vera með þennan leik í hálfleik þó svo að það hafi ekki verið komið mark.“

Þessi úrslit fleyta Stjörnunni upp í efri helminginn á markatölu en þessi úrslit hljóta að gefa liðinu byr undir báða vængi.

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með stöðutöfluna á hreinu en þetta er mjög þétt þarna. Þannig að þrjú stig gefa okkur helling.“

Hvernig horfir Ingibjörg á framhaldið. Stjarnan er í góðum séns á að komast og vera í efri hlutanum.

„Klárlega, það er alltaf stefnan að vera í efri hlutanum. Ef við spilum eins og við gerðum í dag þá ætti það að vera lítið vesen.“

Ingibjörg var að skora sitt fyrsta mark í sumar og var spurð að lokum út í það hvernig það var að sjá boltann syngja í netinu.

„Það var mjög ljúft. Ég hef látið verja frá mér nokkrum sinnum í sumar og það var fínt að það var ekki í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×