Íslenski boltinn

Galdur orðinn leik­maður KR

Valur Páll Eiríksson skrifar
Galdur Guðmundsson er nýr leikmaður KR.
Galdur Guðmundsson er nýr leikmaður KR. Mynd/KR

Hinn 19 ára gamli Galdur Guðmundsson er genginn í raðir KR frá Horsens í Danmörku. Hann skrifar undir þriggja og hálfs árs samning í Vesturbænum.

Félagsskiptin hafa legið í loftinu í vikunni og KR staðfesti komu Galdurs á miðlum félagsins í hádeginu. Hann lék áður undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara KR, hjá Breiðabliki árin 2021 og 2022 en það ár seldi Breiðablik hann til FC Kaupmannahafnar í Danmörku.

Galdur var á mála hjá FCK þar til í vetur þegar hann fór til Horsens en eftir stutt stopp hefur KR nú keypt hann þaðan. Galdur spilaði einn leik fyrir danska liðið á yfirstandandi leiktíð fyrir skiptin.

Galdur leikur sem kantmaður og mun líklega fylla skarð Luke Rae sem tognaði í læri í leik KR og ÍBV um helgina. Rae hefur glímt við ítrekaðar tognanir aftan í læri síðustu misseri og verður að líkindum frá um hríð.

Galdur getur spilað sinn fyrsta leik þegar KR fær Aftureldingu í heimsókn á Meistaravelli á mánudagskvöldið kemur.

KR situr í 11. sæti deildarinnar, fallsæti, með 17 stig eftir 17 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×