Fótbolti

„Brugðumst vel við þeim að­stæðum sem leikurinn henti í okkur“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jökull I. Elísabetarson var ánægður með margt við spilamennsku Stjörnunnar í kvöld.
Jökull I. Elísabetarson var ánægður með margt við spilamennsku Stjörnunnar í kvöld. Vísir/Diego

Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, hrósaði andanum í Stjörnuliðinu og hversu vel liðið brást við mótlæti og þeim aðstæðum sem upp komu í sigri liðsins gegn Víkingi í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld. 

„Það var gríðarlegur kraftur í Stjörnuliðinu í kvöld og við díluðum vel við þær aðstæður sem þessi leikur bauð upp á. Við vorum í smá tíma að ná takti í uppspilið hjá okkur en þegar það tókst þá spiluðum við bara ljómandi vel og skoruðum tvö fín mörk,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

„Svo þurfum við að breyta upplegginu eftir að við verðum einum manni færri en mér fannst við bara verjast vel manni færri og gefa fá færi á okkur. Það var mikið spirit í liðinu og ég mér fannst mun meiri orka í okkur en í leiknum við Fram í síðustu umferð til að mynda. Ég er sáttur við það,“ sagði Jökull þar að auki.

„Við höfum ekki verið nógu stöðugir í spilamennsku okkar á þessu tímabili og kannski ekki náð að meitla leikstíl okkar nógu vel í stein. Við þurfum að nýta þann byr sem þessi sigur veitir okkur. Auk þess þurfum við að ná meiri stöðugleika í frammistöður okkar á sama tíma og við bætum stigasöfnunina,“ sagði hann um stöðu mála hjá Stjörnunni.

„Ég verð líka að nefna að mér fannst við höndla það vel að fá á okkur marga vafasama dóma sem hölluðu á okkur. Varamannabekkur Víkings gerir vel í að setja gríðarlega pressu á dómarateymið allan leikinn.

Dómarar eru bara mannlegir og mér fannst dómarateymið bogna undir ágangi frá bekknum hjá Víkingi að þessu sinni. Við vorum spjaldaðir í gríð og erg og það hallaði á okkur í stórum atvikum í báðum vítateigum. Á meðan aga- og úrskurðarnefnd KSÍ tekur ekki á þessu þá heldur þetta bara áfram og þeir geta sett dómarana undir pressu með aggresívum hætti,“ sagði Jökull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×