Innlent

Bráða­birgða­heimild veitt fyrir Hvamms­virkjun

Kjartan Kjartansson skrifar
Efnisvinnsla vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun.
Efnisvinnsla vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun. Landsvirkjun

Umhverfis- og orkustofnun veitti Landsvirkjun bráðabirgðaheimild til undirbúningsframkvæmda við Hammvirkjun í dag. Heimildin er sögð varða framkvæmdir sem voru þegar hafnar og að þær hafi engin áhrif á vatnshlot.

Landsvirkjun fær með bráðabirgðavirkjunarleyfinu heimild til þess að setja upp vinnubúðir, aðkomuvegi og annarrar vegagerðar innan framkvæmdasvæðis. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að framkvæmdirnar séu hvorki í né við vatnsfarveg Þjórsár og hafi því hvorki bein né óbein áhrif á svonefnt vatnshlot. Vatnshlot er eining af vatni og er hugtak sem er notað við stjórn vatnamála.

Leyfið gildi til sex mánaða. Landsvirkjun segist nú ætla að sækja um framkvæmdaleyfi til Rangárþings ytra til þess að halda undirbúningsframkvæmdum sem voru hafnar áfram. Til stóð að þeim lyki fyrir áramót. Þá hefur fyrirtækið óskað eftir því að Umhverfis- og orkustofnun fjalli að nýju um umsókn um virkjunarleyfi vegna virkunarinnar.

Virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar var ógilt fyrir dómstólum og var staðfest í Hæstarétti í sumar. Landsvirkjun sótti um leyfi að nýju á grundvelli breytinga sem gerðar voru á lögum um raforku og stjórn vatnamála. Framkvæmdir vegna virkjunarinn voru stöðvaðar með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kröfu landeigenda við Þjórsá í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×