Erlent

Ráðist á Palestínu­menn á Vestur­bakkanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelsmenn hyggja á frekari uppbyggingu á Vesturbakkanum.
Ísraelsmenn hyggja á frekari uppbyggingu á Vesturbakkanum. Getty/Tamir Kalifa

Hjón særðust í árás landtökufólks á þorpið Susya á Vesturbakkanum í nótt og þá voru gerðar árásir á þorpið Atara, þar sem kveikt var í bifreiðum Palestínumanna.

Ofbeldi á Vesturbakkanum hefur aukist og yfir þúsund Palestínumenn sagðir hafa verið drepnir af landtökufólki og hermönnum Ísraelshers frá árinu 2023. Landtökufólk hefur sjaldnast sætt afleiðingum fyrir ofbeldisverk sín, sérstaklega ekki síðan núverandi stjórn tók við völdum.

Greint var frá því í gær að Bezalel Smotrich, fjármálaráðherra Ísrael, hefði tilkynnt um 3.400 nýjar byggingar á Vesturbakkanum, sem hann sagði marka endalok hugmynda manna um sjálfstætt Palestínuríki.

Fyrirætlanirnar hafa verið fordæmdar af Evrópusambandinu en yfirlýsing Smotrich kemur á hæla ákvarðana stjórnvalda í Ástralíu, Bretlandi, Frakklandi og Kanada um að viðurkenna Palestínu.

Smotrich sagði að þeim sem vildu viðurkenna sjálfstætt Palestínuríki yrði svarað, ekki með yfirlýsingum, ákvörðunum eða gögnum, heldur í raunverulegum aðgerðum. Virðist hann þar vísa til ákvörðunarinnar um frekari landtöku á Vesturbakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×