Körfubolti

Tryggvi lét mest til sín taka í tapi gegn Portúgal

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tryggvi Hlinason var stigahæstur hjá Íslandi gegn Portúgal. 
Tryggvi Hlinason var stigahæstur hjá Íslandi gegn Portúgal.  Serhat Cagdas/Anadolu Agency via Getty Images

Ísland tapaði naumlega, 83-79 gegn Portúgal í æfingaleik fyrir Evrópumótið í körfubolta. 

Ísland byrjaði leikinn vel og tók tíu stiga forystu strax í upphafi en var fljótt að missa hana frá sér. Leikurinn jafnaðist út en Ísland leiddi mest allan fyrri hálfleik og var þremur stigum yfir þegar flautað var til hálfleiks, staðan þá 45-42 fyrir Íslandi.

Ísland missti svo forystuna í þriðja leikhluta og var lent fimm stigum á eftir Portúgal fyrir fjórða leikhlutann en var ekki lengi að jafna og gera lokamínúturnar spennandi.

Strákunum okkar tókst að komast aftur yfir en þeir náðu ekki halda út til enda. Tryggvi Hlinason missti boltann, Haukur Helgi Pálsson klikkaði á þriggja stiga skoti og Elvar Már Friðriksson átti misheppnað sneiðskot á síðustu tveimur mínútunum.

Á meðan setti Portúgal sín skot og víti ofan í til að tryggja sigurinn, lokatölur 83-79.

Tryggvi Hlinason leiddi stigasöfnunina og frákastabaráttuna með 16 stig og 8 fráköst. Martin Hermannsson fylgdi honum eftir með 13 stig og 9 stoðsendingar, margar hverjar mjög glæsilegar.

Maður leiksins var hins vegar bandaríski Portúgalinn Travante Williams, með 21 stig og 6 stolna bolta.

Allir þrettán leikmenn Íslands tóku þátt í leiknum en Kári Jónsson og Sigtryggur Arnar Björnsson spiluðu aðeins um tvær mínútur hvor. Aðeins tólf leikmenn fara á lokamótið og talið er að valið verði milli þeirra tveggja.

Förinni er nú haldið heim til Íslands áður en leiðin liggur til Litáen þann 21. ágúst í síðasta æfingaleikinn. Þaðan verður haldið til Katowice í Póllandi. Evrópumótið sjálft hefst þar þann 27. ágúst, fyrsti leikur Íslands verður gegn Ísrael degi síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×