Skoðun

Við lifum ekki á tíma fas­isma

Hjörvar Sigurðsson skrifar

Svo það vefjist ekki fyrir þeim sem þjást af svarthvítum hugsunarhætti þá skal það hér með sagt að höfundur er ekki stuðningsmaður Trump og fordæmir skilyrðislaust allt ofbeldi gegn saklausum einstaklingum, þar með talið Palestínubúum á Gaza.

Á undanförnum árum hefur víða um hinn vestræna heim átt sér stað sú óhugnanlega þróun að gripið er í síauknum mæli til gífuryrða til að lýsa því sem lýsandi mislíkar. Fasismi, ásamt rasisma, eru þau gífuryrði sem mér hefur þótt algengust meðal þeirra til hverra þróunin hefur náð.

Ég reyni eftir bestu getu að gera ráð fyrir að fólk segi það sem það segir og geri það sem það gerir á heiðarlegum og jákvæðum forsendum með hag alls samfélagsins að leiðarljósi. Verð ég því að ganga út frá því að höfundur skoðanapistils sem birtist hér á Vísi 13. ágúst hafi tjáð sig á grundvelli misskilnings eða fáfræði en ekki með það að leiðarljósi að stuðla að samfélagslegri fordæmingu á málefnalegum, gildum og eðlilegum sjónarmiðum stórs hluta samfélagsins.

Höfundur fyrrnefndrar greinar fullyrðir að í Ísrael ríki fasismi. Þetta er bersýnilega rangt, en Ísrael er frjálst lýðræðisríki með almennan kosningarétt þar sem réttindi einstaklingsins gagnvart ríkinu er varin í stjórnarskrá[1]. Einstaklingum er frjálst að breyta á grundvelli eigin hagsmuna og hvata svo lengi sem það stangast ekki á við lög, en lögin eru samin af kjörnum fulltrúum fólksins. Sér til fróðleiks er lesandi hvattur til að bera saman stjórnskipan í Ísrael við stjórnskipan í Gaza.

Sömuleiðis fullyrðir höfundur fyrrnefndrar greinar að í Rússlandi ríki fasismi. Aftur er þetta rangt en þó ekki eins bersýnilega og í tilfelli Ísraels þar sem að Rússland er ekki frjálst ríki né heldur lýðræðisríki nema þá mögulega í nafni. Í Rússlandi ríkir einvaldur og einkennist þjóðfélagið af forræðishyggju ríkisins, sérstakri birtingarmynd þjóðernishyggju sem nær meðal annars til þeirra sem í augum alþjóðasamfélagsins teljast til annara þjóða, misbeitingu Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í þágu ríkisins, og menningarlegri speglun gagnvart vesturlöndum.

Fasismi, hins vegar, jafngildir ekki forræðishyggju. Fasismi jafngildir ekki einræði. Fasismi jafngildir ekki þjóðernishyggju. Né heldur jafngildir fasismi blöndu þessara atriða. Fasismi er vel skilgreint hugtak sem vísar til þeirrar hugmyndafræði sem var ríkjandi á Ítalíu undir einvaldinum Benito Mussolini upp úr öðrum áratugi tuttugustu aldarinnar og hangir saman við hugmyndarfræðilegan bakgrunn þess tíma[2]. Fasismi, eins og allar stefnur í sögu hugmynda í Evrópu og víðar, kemur til í sögulegu og félagslegu samhengi en ekki í tómarúmi, og er ógerningur að slíta stefnuna úr því samhengi — félagshyggju Marx, heimspeki Hegel, "goðsagnahyggju“ Sorel o.s.frv.

Einkennist fasismi af öfgafyllri þjóðernishyggju sem skipar Þjóðinni guðdómlegan sess í þjóðarsálinni. Allt innan samfélagsins skal hafa það markmið að efla Þjóðina. Einstaklingar eru bundnir saman blóðböndum Þjóðarinnar og skulu haga sér á grundvelli hagsmuna hennar umfram allt. Þeir sem tilheyra ekki þessum blóðböndum eru síðri og hafa ekkert tilkall til Þjóðarinnar, þ.e. hvorki til ríkisins né þjóðfélagsins almennt.

Þjóðernishyggja af þeim toga sem einkenndi fasismann og nasismann er frábrugðin þeirri þjóðernishyggju sem við höfum séð í hinum vestræna heimi síðan — ekki bara megindlega heldur eigindlega. Það er þessi sértæki eiginleiki fasisma og nasisma sem var forsenda — meðal, að sjálfsögðu, annara samfélagslegra, sagnfræðilegra, hagfræðilegra, heimspekilegra, og trúarlegra þátta — þeirra hörmunga sem þessar stefnur leiddu yfir heiminn á sínum tíma.

Hvers vegna skiptir þetta máli? Jú, þetta skiptir máli vegna þess að misnotkun hugtaka hefur á undanförnum árum spilað stóran þátt í þeirri skautun sem hefur í síauknum mæli einkennt vestræn samfélög og hefur stuðlað að einmitt þeirri stöðu sem höfundur fyrrnefndrar greinar gagnrýnir. Þegar þú bregst við afstöðu annarra með því að líkja henni við hugmyndafræði sem að við sem samfélag höfum sammælst um að sé óforsvaranleg, og í raun holdgerving illsku, skipar þú viðmælenda þinn í hóp öfgamanna og neitar honum þátttöku í málefnalegum skoðanaskiptum á samfélagslegum vettvangi. Þá er fátt eftir fyrir hann en að snúa baki við þér og stunda skoðanaskipti á öðrum, skuggalegri vettvangi þar sem raunveruleg öfga-hugmyndafræði þrífst. Er hann þá líklegri til að sannfærast af málflutningi öfgamanna, en þar með hefur þú framleitt nýjan meðlim þeirrar fylkingar sem þú segist berjast gegn.

Einnig skiptir þetta máli vegna þess að með því að misnota hugtök á þennan máta til þess að lýsa neyðarástandi sem eins brýn þörf er á að leysa og staðan í, t.d., Gaza um þessar mundir þá þvælist þú fyrir og hindrar að það takist. Með því að boða einhliða, svarthvíta og öfgakennda sýn á eins flókið málefni og ástandið í Ísrael-Palestínu þá útilokar þú að stór hópur fólks, sem brennur ekki síður en þú sjálf fyrir því að binda enda á blóðsúthellingarnar og koma á frið, geti unnið með þér í því verkefni. Með því að stimpla Trump sem fasista þá lokar þú fyrir möguleikann á því að ræða málefnalega það í hans fari og ákvörðunartöku sem kallar raunverulega á umræðu og jafnvel fordæmingu. Við lifum vissulega, að mati höfundar, á tíma vaxandi forræðishyggju og popúlisma þar sem vísbendingar eru til staðar um að lýðræðisríki standa hallandi fæti á meðan einræðisríki virðast vera í sókn — að draga fram fasisma fortíðarinnar kemur í veg fyrir að við getum snúið bökum saman og veitt þessari ljótu þróun þá mótspyrnu sem hún verðskuldar.

Enn fremur skiptir þetta máli vegna þess að þegar þú líkir saman eins alvarlegu hugtaki og fasisma við ástandið í, t.d., Bandaríkjunum í dag þá gerir þú lítið úr fasisma og stuðlar að gjaldfellingu hugtaksins hvað sagnfræðilegt notagildi þess varðar. Þú býður fólki engan valkost, hyggst það ekki hundsa málflutning þinn, nema skilja fasisma sem vægara hugtak en það raunverulega er — „ef allt er fasismi, er þá ekki fasismi bara allt í lagi?“

Að lokum skiptir þetta máli vegna þess að með því að halda svona löguðu fram þá stuðlar þú að þeirri upplýsingaóreiðu sem einkennir samtíma okkar í síauknum mæli. Fólk sem kann að fylgjast lítið með, eða kafar ekki dýpra ofan í málin en svo að láta fyrirsagnir duga, gæti komið til með að trúa því að fasismi — þessi hryllingur sem það man eftir að læra um í skólanum — sé snúinn aftur. Hefur þetta í kjölfarið áhrif á ákvörðunartöku þeirra þegar kemur að samfélagslegum og pólitískum málefnum. Aftur stuðlar þetta svo að skautun og popúlisma.

Hér skal það skýrt sagt: koma þessa þríeykis — marxisma, fasisma og nasisma — er með skelfilegustu stefum í langri sögu hugmynda og hugmyndafræði og leiddu til dauða vel yfir hundrað milljón manns. Að líkja Bandaríkjunum árið 2025, einu frjálsasta lýðræðisríki sögunnar, við fasisma — að líkja flutning heimilislausra á götum Washington D.C. í húsnæði utan höfuðborgarinnar við dauðabúðir nasismans þar sem um milljón manns voru myrtir — er í besta falli fáfræði og í versta falli siðlaus svívirðing gagnvart minningu þessara einstaklinga.

Höfundur er áhugamaður um hugmyndir og hugtök.


[1] Þó frábrugðin að vissu leiti því sem við þekkjum á Íslandi; sjá uncodified constitution.

[2] Einnig má færa rök fyrir því að nasismi Þýskalands undir Adolf Hitler sé form af fasisma.




Skoðun

Sjá meira


×