Skoðun

Átta at­riði sem sýna fram á vanda há­vaxta­stefnunnar

Halla Gunnarsdóttir skrifar

Seðlabankinn hefur nú tilkynnt að stýrivextir muni standa í stað næstu mánuði og hefur hávaxtastefna bankans varað í rúm þrjú ár. Í aðdraganda ákvörðunarinnar stigu sífellt fleiri aðilar fram og bentu á að hávaxtastefnan væri gengin sér til húðar og þarfnaðist endurskoðunar. En um leið voru flestir fjármálaálitsgjafar á því að bankinn myndi engu breyta, enda séu stýrivextir helsta tæki Seðlabankans til að ná tökum á efnahagslífinu og ef eitthvað er fer verðbólgan nú vaxandi.

Vandinn er sá að þótt stýrivextir Seðlabankans nái að leysa einhver vandamál þá skapa þeir ný vandamál um leið. Hér eru nokkur atriði sem varpa ljósi á vanda hávaxtastefnunnar:

1. Er neysla að eiga þak yfir höfuðið?

Þak yfir höfuðið er ekki lúxusvara sem er hægt að komast af án þess að eiga eitt árið og fá sér meira af það næsta. Hávaxtastefnan pínir húsnæðisskuldara og leigjendur og gerir ungu fólki nánast ómögulegt að koma sér úr foreldrahúsum. Um leið er öllum ljóst að það mun skapa vandræði til framtíðar að hægja á húsnæðisuppbyggingu og stíflan sem er nú við rásmarkið mun hafa alvarlegar afleiðingar um langa hríð. Húsnæði er grunnþörf, ekki valkvæður neysluvarningur.

2. Áttu tvær milljónir á lausu í ár?

Það er óásættanlegt að húsnæðiskostnaður fólks sveiflist jafnmikið og raun ber vitni. Hér er dæmi: hjón sem tóku 50 milljón króna húsnæðislán í ársbyrjun 2022, með föstum vöxtum í 4,75% til þriggja ára, greiddu um 232 þúsund krónur af láninu til að byrja með, sem eru mestmegnis vextir fyrstu ár lánstímabilsins. Þegar vextir losnuðu nú í upphafi ársins hækkaði greiðslubyrði hjónanna um 183 þúsund krónur á mánuði og þegar árið er úti hafa þau greitt um tvær milljónir króna aukalega af láninu en þau hefðu mátt gera ráð fyrir þegar þau tóku lánið. Það jafngildir launagreiðslum upp á 320 þúsund krónur á mánuði. Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp – og síst af öllu á tímum lágra launahækkana.

3. Verðtryggingin gefur og verðtryggingin tekur

Ef sömu hjón hefðu tekið verðtryggt lán hefði greiðslubyrðin vissulega hækkað minna eða „aðeins“ um um það bil 40 þúsund krónur á mánuði. Höfuðstóll lánsins hefði hins vegar hækkað um næstum 10 milljónir króna og færi enn hækkandi. Verðtryggingin hefur veitt fjölda húsnæðislántakenda skjól frá óbærilegri greiðslubyrði hávaxtastefnunnar, en fólk er í raun að varpa byrðunum inn í framtíðina og getur í versta falli lent í að skulda meira en það á í eign sinni, líkt og gerðist í hruninu. Enn fremur þá er það nú markmið Seðlabankans að ná vöxtum á verðtryggðum lánum upp, sem mun þrengja enn frekar að fólki sem hefur ekki mikið svigrúm fyrir.

4. Þegar „tímabundið“ varir árum saman

Í grófum dráttum má segja að helsta markmið hárra stýrivaxta sé að taka peninga úr umferð, með öðrum orðum kæla hagkerfið með því að hægja á fjárfestingu og neyslu. Þetta gæti verið snjallt ef málið snerist um að fá fólk tímabundið til að fara aðeins sjaldnar út að borða, ferðast örlítið minna í ár, bíða með tímabærar endurbætur á baðherberginu og fresta kaupum á vörum og þjónustu sem er í lagi að bíða með. Vandinn er hins vegar sá að þrjú ár eru tæplega „tímabundið“. Á einhverjum tímapunkti verður ónýtt baðkar þreytt (ég tala af reynslu!) og við höfum öll gott af tilbreytingu í daglegu lífi, hvort sem það er á veitingastað eða í leikhúsi. Fyrirtæki getur hugsanlega sett fjárfestingar á ís í smá tíma en í velflestum greinum er ekki hægt að sleppa þeim árum saman. Hugsum okkur ferðaþjónustufyrirtæki sem bíður með að kaupa nýjar rútur eða fjarskiptafyrirtæki sem lætur alla nýja tækni eiga sig í nokkur ár.

5. Hverjir eru á Tene?

Þá að utanlandsferðunum sem Seðlabankastjóri og skoðanasystkini hans þreytast ekki á að víkja að. Við erum víst öll alltof mikið á Tene! Í fyrsta lagi er fráleitt að ætla að banna vinnandi fólki að fara í frí til útlanda svo árum skiptir. Eins ágætt og það er að vera á Íslandi þá eru utanlandsferðir líka mikilvægur þáttur í lífi velflestra sem hér búa, innfæddra sem aðfluttra. En hverjir eru það sem eru sífellt á flandri? Í Bretlandi hefur verið sýnt fram á að þau 3% sem fara sex sinnum eða oftar til útlanda á ári fljúga 30% allra flugferða. Hér á landi er nokkuð ljóst að fólk í ákveðnum störfum fer mikið til útlanda og eldri borgarar dvelja gjarnan meira erlendis en vinnandi fjölskyldufólk. Það getur bæði komið til að af góðu og vondu. Hluti eldri borgara dvelur erlendis vegna þess að lífeyrisgreiðslur þeirra duga ekki til framfærslu hérlendis. En svo eru líka hin sem eru betur stæð og hafa jafnvel meira á milli handanna en áður vegna hávaxtastefnunnar. Dæmi má nefna um hjón sem minnka við sig úr 130 milljón króna skuldlausu húsi, kaupa 90 milljón króna íbúð og eiga þá um 40 milljónir króna í sparifé. Vaxtatekjur þeirra geta verið hátt í þrjár milljónir króna á ári og það dugir ágætlega fyrir fleiri ferðum til Tene.

6. Ójöfnuður milli kynslóða eykst

Ójöfnuður milli kynslóða fer vaxandi. Það getur haft ævilöng áhrif á ungt fólk hvernig staðan í efnahagslífinu er akkúrat þegar það þarf á því að halda að koma sér þaki yfir höfuðið. Greining frá Visku hefur sýnt fram á að kaupmáttur ungs fólks hefur staðið í stað í tuttugu ár á meðan kaupmáttur fólks yfir sextugt hefur aukist þrefalt til fjórfalt. Yngra fólk greiðir fyrir stýrivextina sem (sumt) eldra fólk hagnast á.

7. Stýrivextir byggja ekki hús

Þá komum við aftur að kjarnanum sem er að háir stýrivextir byggja ekki hús. Þeir útiloka fólk frá húsnæðisöryggi og það mun hafa áhrif á fasteignamarkaðinn árum saman. Þar sem verðbólgan er tilkomin af stórum hluta vegna skorts á húsnæði gefur það auga leið að hávaxtastefnan getur unnið gegn eigin markmiðum. Byggingarverktaki getur valið að mæta háum stýrivöxtum með hærra verði til kaupenda, sem veldur verðbólgu núna, eða með því að hætta að byggja, sem veldur verðbólgu til framtíðar.

8. Stýrivextir koma ekki í veg fyrir gróðasókn fyrirtækja

Stýrivextir koma heldur ekki í veg fyrir gróðasókn fyrirtækja, sem heldur einnig hitanum í verðbólgubálinu. Ásamt ólestri í húsnæðismálum, þá eru það verðhækkanir (og skortur á verðlækkunum, t.d. á bensíni) sem keyra verðbólguna áfram. Hagnaður fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu jókst stórkostlega eftir heimsfaraldur, fór úr 265 milljörðum árið 2019 í 536 milljarða árið 2023. Þetta var ekki eðlilegur vöxtur, heldur viðskiptalegur uppgangur á verðbólgutímum sem voru launafólki erfiðir. Þetta gerði að verkum að verðbólgan varð meiri en hún hefði þurft að vera og stýrivextir þar með hærri. Og við höldum áfram að borga. Húsnæðiskostnaður bæði leigjenda og skuldara hefur hækkað langt umfram verðbólgu. Rafmagn og hiti hefur hækkað um tæp 10% og drykkjarvörur um 7,9%. Matur hefur hækkað um 4,6%. Ef fyrirtæki hefðu haldið aftur af verðhækkunum líkt og stefnt var að með núgildandi kjarasamningum værum við einfaldlega á betri stað.

Að lokum: hávaxtastefna er pólitísk stefna

Þá er komið að lokaorðum þessarar upptalningar sem eru árétting á þeirri staðreynd að hávaxtastefna er pólitísk stefna. Hún tekur fjármuni frá þeim sem skulda og leigja og færir þá þeim sem eiga. Ef það myndi duga til þess að koma skikki á efnahagslífið rösklega mætti eflaust krefja fólk um að sætta sig við það. En nú eru komin þrjú ár af þessari pólitík og skaðinn verður sífellt augljósari. Hávaxtastefnan verður að renna sitt skeið.

Höfundur er formaður VR.




Skoðun

Sjá meira


×