Íslenski boltinn

Mark­vörður ÍBV kominn með fimm gul spjöld í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcel Zapytowski hefur verið duglegur að safna spjöldum í sumar.
Marcel Zapytowski hefur verið duglegur að safna spjöldum í sumar. vísir/diego

Aðeins tveir leikmenn ÍBV hafa fengið fleiri gul spjöld í Bestu deild karla en markvörðurinn Marcel Zapytowski.

ÍBV var í gær hársbreidd frá því að verða fyrsta liðið til að vinna FH í Kaplakrika í sumar. Hermann Þór Ragnarsson kom Eyjamönnum yfir á 88. mínútu en Kjartan Kári Halldórsson jafnaði fyrir FH-inga þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Zapytowski stóð á milli stanganna hjá ÍBV og sá pólski fékk gult spjald fyrir mótmæli á 76. mínútu.

Það er ekkert nýtt að Zapytowski sé færður til bókar því hann hefur nú fengið fimm gul spjöld í Bestu deildinni og hefur þegar farið einu sinni í leikbann. Hjörvar Daði Arnarsson fyllti skarð hans í 1-0 tapi fyrir KA 10. ágúst.

Aðeins Milan Tomic og Arnór Ingi Kristinsson hafa fengið fleiri spjöld en Zapytowski fyrir ÍBV í sumar, eða sex talsins.

Hinn 24 ára Zapytowski kom til ÍBV fyrir tímabilið. Hann hefur leikið nítján af tuttugu leikjum Eyjamanna í Bestu deildinni og haldið fimm sinnum hreinu.

ÍBV er í 9. sæti Bestu deildarinnar með 25 stig. Liðið á eftir að mæta ÍA á heimavelli og Breiðabliki á útivelli áður en deildinni verður skipt upp. Eyjamenn eru einu stigi á eftir Vestramönnum sem eru í 6. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×