Innlent

Miklir vatna­vextir og Fjalla­bak ill­fært flestum bílum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá aðgerðum Hálendisvaktar við vaðið yfir Námakvísl í morgun.
Frá aðgerðum Hálendisvaktar við vaðið yfir Námakvísl í morgun. Landsbjörg

Mikið hefur rignt að Fjallabaki síðastliðinn sólarhring og ár og vötn bólgnað í miklum vatnavöxtum í kjölfar rigningarinnar.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að hópur frá Björgunarsveitinni Þorbirni, sem nú sinni Hálendisvakt í Landmannalaugum, hafi í morgun gætt þess að ferðalangar sem hafi verið í Landmannalaugum, komist klakklaust yfir vaðið á Námakvísl. Áin er alla jafna tær bergvatnsá, en er nú sem ólgandi jökulfljót á að líta. 

„Eftir að hafa aðstoðað einn bíl sem lenti í vandræðum var tekin ákvörðun um að fylgja öllum smærri jeppum yfir vöðin í Laugum til að koma í veg fyrir að þeir ferðalangar sem voru að fara úr Laugum, lentu í samskonar vandræðum.

Nú er afar fátt í Landmannalaugum og Jökulgilskvíslin beljar sem stórfljót rétt við tjaldsvæðin.

Eftir að hafa aðstoðað einn bíl sem lenti í vandræðum var tekin ákvörðun um að fylgja öllum smærri jeppum yfir vöðin í Landmannalaugum. Landsbjörg

Í sumar hafa verið talsverðir vatnavextir á Mælifellssandi og þó nokkrir ferðalangar lent þar í vandræðum. Nú er enn meira vatn þar og eftir könnunarleiðangur Hálendisvaktar í gær inn á Mælifellssand, er ljóst að leiðin er illfær jafnvel mikið breyttum jeppum, jafnvel stórum trukkum.

Rétt er að vara við ferðalögum inn á þessi svæði á meðan þessi staða er uppi,“ segir í tilkynningunni. 

Meðfylgjandi eru ljósmyndir frá aðgerðum Hálendisvaktyar við vaðð yfir Námakvísl í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×