Körfubolti

Haukur Helgi mættur eftir að­gerð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Haukur Helgi ásamt Kára Jónssyni. Haukur er með bundið um hálsinn eftir aðgerðina.
Haukur Helgi ásamt Kára Jónssyni. Haukur er með bundið um hálsinn eftir aðgerðina. Vísir/Hulda Margrét

Haukur Helgi Pálsson er mættur í keppnishöllina í Katowice fyrir leik Íslands við Belgíu á EM. Hann lenti í nótt eftir að hafa undirgengist aðgerð á þriðjudaginn var.

Það var Hauki Helga sem og landsliðinu öllu töluvert áfall þegar hann hrökklaðist úr lestinni skömmu fyrir mót. Hann hafði fengið högg á barkann í leik við Portúgal og í ljós kom að hann var brákaður á barka og þurfti að undirgangast aðgerð á þriðjudaginn var.

Aðgerðin heppnaðist vel og hann mættur hingað út til Katowice líkt og áætlanir stóðu til um. Hann lenti í Varsjá seint í gærkvöldi og kom á hótel liðsins eftir miðnættið.

Ægir Þór Steinarsson og Craig Pedersen höfðu báðir orð á því við Vísi að þeir hlökkuðu til að fá Hauk til liðs við hópinn.

Haukur sagði í viðtali við Vísi í síðustu viku að hann hyggðist styðja við liðið eins og hann gæti á mótinu. Því miður er það ekki innan vallar en hann verður engu að síður hluti af hópnum það sem eftir er móts. Gistir á liðshótelinu og verður strákunum innan handar.

Ísland mætir Belgíu í öðrum leik liðsins á EM klukkan 12:00. Beina textalýsingu frá leiknum má nálgast hér.


Tengdar fréttir

„Hljóp stressið fljótt úr mér“

Orri Gunnarsson er mættur á sitt fyrsta Eurobasket og ekki bara sem farþegi heldur sem byrjunarliðsmaður í íslenska liðinu.

Stoltur og þakklátur með tárin í augunum

„Leiðtogarnir í þessu liði sögðu okkur það að við hefðum ekki mikinn tíma til að svekkja okkur. Við vorum svekktir í rútunni en svo var það búið. Þegar við komum upp á hótel lögðum við það til hliðar og einbeittum okkur að næsta hlut,“ segir Hilmar Smári Henningsson, leikmaður körfuboltalandsliðsins, um tap fyrir Ísrael á EM í gær. Öll einbeiting sé á næsta leik við Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×