Erlent

Vilja viður­kenna Palestínu en með skil­yrðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Prévot segir viðurkenninguna háða skilyrðum.
Prévot segir viðurkenninguna háða skilyrðum. Getty/NurPhoto/Klaudia Radecka

Maxime Prévot, utanríkisráðherra Belgíu, segir þarlend stjórnvöld munu viðurkenna sjálfstætt Palestínuríki á allsherjarríki Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum.

Belgar bætast þannig í hóp þeirra ríkja sem hafa ákveðið að viðurkenna Palestínu í kjölfar stríðsins á Gasa en þar má nefna eru Ástralíu, Bretland, Frakkland og Kanada.

Prévot útskýrði ákvörðunina á samfélagsmiðlinum X og sagði meðal annars að hún beindist ekki gegn Ísraelsmönnum sem þjóð, heldur væri hún tilraun til að hvetja stjórnvöld landsins til að virða alþjóðalög og mannréttindi og grípa til aðgerða til að bæta stöðu íbúa Gasa.

Ráðherrann segir viðurkenningu Belga háða ákveðnum skilyrðum; þannig yrði til að mynda aðeins gengið frá henni formlega þegar Hamas-liðar hefðu sleppt öllum gíslum í haldi á Gasa og samtökin ættu ekki lengur neina aðkomu að stjórnun Palestínu.

Stjórnvöld í Belgíu hyggjast einnig banna leiðtogum Hamas að ferðast til landsins og þá yrði gripið til sömu aðgerða gegn tveimur „öfgafullum“ ráðherrum og „ofbeldisfullum landtökumönnum“.

Ráðherrarnir eru ekki nefndir á nafn en líklega er um að ræða öryggismálaráðherrann Itamar Ben-Gvir og fjármálaráðherrann Bezalel Smotrich, sem hafa viljað ganga hvað lengst gegn Palestínumönnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×