Viðskipti innlent

Flestir á­nægðir með söluna á Ís­lands­banka

Kjartan Kjartansson skrifar
Rúmlega þrjátíu þúsund einstaklingar keyptu eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka í söluferlinu í vor.
Rúmlega þrjátíu þúsund einstaklingar keyptu eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka í söluferlinu í vor. Vísir/Vilhelm

Rúmlega 45 prósent svarenda í skoðanakönnun segjast ánægðir með söluferlið á hlut ríkisins í Íslandsbanka í vor. Um fimmtungur sagðist óánægður. Mun meiri ánægja var með söluna nú en þá sem átti sér stað árið 2022.

Afgerandi munur er á afstöðu svarenda í könnun Maskína nú annars vegar og í apríl 2022 hins vegar. Þá sögðust aðeins sjö prósent ánægð með söluferlið en 83 prósent voru óánægð. Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra vegna gagnrýni á söluferlið, sérstaklega að föður hans hafi boðist að kaupa hluti í því.

Mest ánægja með söluferlið nú er í röðum tveggja stjórnarflokka af þremur, Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Þar mælist ánægjan 48 prósent annars vegar og 64 prósent hins vegar. Fleiri kjósendur Flokks fólksins eru aftur á móti óánægðir með söluna en ánægðir, 39 prósent gegn 25 prósentum.

Minnst ánægja með söluferlið mældist í röðum Sósíalistaflokksins en aðeins níu prósent stuðningsmanna hans voru sátt.

Umtalsvert meiri ánægja mældist með söluferlið í könnun sem Gallup gerði í júlí. Þá sögðust tæplega tveir af hverjum þremur ánægðir með hvernig til tókst en fimmtán prósent sögðust óánægð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×