Erlent

Gerðu loft­á­rás á vinnu­svæði danskra hjálparsamtaka

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hinir látnu eru úkraínskir starfsmenn samtakanna. 
Hinir látnu eru úkraínskir starfsmenn samtakanna.  Lögreglan í Úkraínu

Tveir eru látnir eftir að Rússlandsher gerði eldflaugaárás á athafnasvæði danskra samtaka nærri Tsjerníhív í Úkraínu þar sem starfsfólk var að aftengja jarðsprengjur. 

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef flóttamannaráðs Danmerkur (DRC). Þar segir að hinir látnu hafi verið úkraínskir starfsmenn DRC sem voru við störf þegar árásin var gerð. Átta til viðbótar særðust í árásinni.

„Starfsmenn DRC voru að einvörðungu að vinna mannúðarstarf þegar atvikið varð — unnu að því að hreinsa námur og leifar af jarðsprengjum í þeim tilgangi að vernda samfélagið og tryggja öruggt aðgengi að innviðum, beitilandi og heimilum,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur fram að árásin sé alvarlegt brot á alþjóðamannúðarlögum. DRC biðlar til allra hlutaðeigandi að virða alþjóðalög og tryggja öryggi og vernd hjálparstarfsmanna. 

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Lars Løkke Rasmussen hafa fordæmt árásina í samfélagsmiðlafærslum

Í færslu á Telegram-reikningi varnarmálaráðuneytis Rússlands sakar ráðuneytið Úkraínumenn um að tengja árás á hernaðarinnviði við mannfall tengt „meintu mannúðarstarfi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×