Erlent

Sér ekki til­gang í öryggistryggingum þar sem Rússum sé treystandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, á ráðstefnu í austurhluta Rússlands í morgun.
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, á ráðstefnu í austurhluta Rússlands í morgun. AP/Stepan Pugachev, Roscongress Foundation

Verði hermenn frá Vesturlöndum sendir til Úkraínu, eftir að friður næst en sérstaklega ef þeir mæta áður en búið er að semja um frið, yrðu þeir lögmæt skotmörk rússneska hersins. Þar að auki yrðu öryggistryggingar handa Úkraínumönnum óþarfar, því Rússum væri treystandi.

Þetta sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á ráðstefnu í austurhluta landsins í morgun og var það í kjölfar þess að margir af bakhjörlum Úkraínu funduðu í París í gær og lögðu línurnar að öryggistryggingum handa Úkraínumönnum eftir stríðið, til að koma í veg fyrir aðra innrás Rússa í framtíðinni.

Þær tryggingar felast mögulega í vestrænum hermönnum í Úkraínu, þar sem þeir myndu meðal annars þjálfa úkraínska hermenn og aukna hernaðaruppbyggingu og hergagnaframleiðslu í Úkraínu.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í gær að leiðtogar 26 ríkja væru tilbúnir til að senda hermenn til Úkraínu til að tryggja öryggi landsins. Hann sagði að þeir yrðu ekki sendir að víglínunni í Úkraínu.

Sjá einnig: Segir 26 ríki vilja senda hermenn til Úkraínu

Á ráðstefnunni í morgun var Pútín spurður um þessar fregnir og sagði hann þá að ef friði yrði komið á „til langs tíma“, yrðu öryggistryggingar óþarfar.

„Ég sé engan tilgang í veru þeirra [erlendra hermanna] í Úkraínu,“ sagði Pútín. Þá sagði hann að Rússar myndu virða friðarsamkomulag við Úkraínumenn, enda yrði það samið með hagsmuni bæði Rússlands og Úkraínu í huga.

Er ekki að tala um frið heldur sigur

Þessi ummæli Pútíns gefa til kynna að hann sjá ekki neitt annað í stöðunni en að Rússar muni sigra Úkraínu. Þegar hann talar um „frið til langs tíma“ er hann að vísa til þess sem hann hefur kallað rætur átakanna eða grunnástæður þeirra.

Það snýr að kröfum Rússa um að ríkjum Austur-Evrópu verði vísað úr Atlantshafsbandalaginu.

BBC hefur eftir Dmitrí Peskóv, talsmanni Pútíns, eftir ummæli forsetans, að hermenn annarra ríkja í Úkraínu, hvort sem ríkin væru í NATO eða ekki, ógnaði öryggi Rússlands af því að „við erum óvinir NATO“.

Peskóv gagnrýndi svo ríki Evrópu til að reyna að koma í veg fyrir endalok stríðsins.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, sagði í gær að Rússar hefðu í raun ekkert um það að segja hverjum Úkraínumenn hleyptu inn í landið.

„Af hverju erum við að spá í hvað Rússum finnst um hermenn í Úkraínu? Þetta er fullvalda ríki. Það er ekki þeirra ákvörðun.“

Hafa ekki mikla trú á loforðum Rússa

Úkraínumenn segjast ekki hafa mikla trú á loforðum Rússa, sem hafi margsinnis svikið samninga og samkomulög þeirra á milli, stór og smá. Í síðasta mánuði ítrekaði Selenskí að hann og aðrir vilji binda enda á innrásina eins fljótt og auðið væri og að friðurinn þyrfti að vera varanlegur.

Hann sagði það þó Rússa að binda enda á stríðið sem þeir hófu og að öryggistryggingar væri nauðsynlegar til að tryggja friðinn til lengri tíma.

Sjá einnig: „Rússar verða að binda enda á stríðið sem þeir hófu“

Selenskí sagði að friður, ef hann ætti að nást, mætti ekki „vera eins og hann var fyrir nokkrum árum, þegar Úkraína var þvinguð til að gefa eftir Krímskaga og hluta af Donbas-héraðinu, sem Pútín notaði svo einfaldlega sem stökkpall fyrir nýja innrás.“

Hann nefndi einnig að öryggisráðstafanir og sagði að þær þyrftu að vera tryggari en hinar „svokölluðu tryggingar“ sem ríkið fékk árið 1994, í Búdapest. Þá létu Úkraínumenn af hendi kjarnorkuvopn og sprengjuflugvélar frá Sovétríkjunum og sendu til Rússlands.

Í staðinn hétu ráðamenn í Rússlandi því að virða fullveldi Úkraínu og landamæri ríkisins og hétu þeir því einnig að beita aldrei valdi gegn Úkraínu, hvorki hernaðarlegu né efnahagslegu. Búdapest sáttmálinn, eins og samkomulag þetta er kallað, var ekki lagalega bindandi.

Sprengjuflugvélarnar sem Úkraínumenn létu af hendi eru nú notaðar til að skjóta stýri- og skotflaugum að úkraínskum borgum.

Vilja fá Selenskí til Moskvu

Eins og áður hefur komið fram sagði Pútín í morgun að Rússar myndu virða friðarsamkomulag við Úkraínu en hann tók fram að enginn hefði enn rætt slíkt af alvöru við Rússa.

Viðleitni Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, til að koma á friði milli Rússa og Úkraínu hefur engan árangur borið enn sem komið er. Úkraínumenn, bakhjarlar þeirra í Evrópu og Trump, um tíma, vildu koma á tafar- og skilyrðislausu vopnahléi í Úkraínu og svo í kjölfarið friðarviðræður.

Það breyttist eftir fund Trumps og Pútíns í síðasta mánuði þegar Trump skipti um skoðun og sagði að í stað vopnahlés þyrfti að koma á almennum friði gegnum viðræður, eins og Pútín hefur talað um.

Þá hefur Trump, eins og Selenskí hefur einnig gert, ítrekað kallað eftir því að Pútín fundi með Selenskí og stríðið. Það hefur Pútín ekki viljað gera hingað til og sagði í morgun að slíkur fundur myndi líklega engum árangri skila.

Sjá einnig: Engir her­menn í Úkraínu og enginn fundur með Pútín

Rússar hafa þó boðið Selenskí á fund Pútíns í Moskvu, sem getur ekki talist alvarlegt boð, þar sem Rússar hafa margsinnis reynt að ráða Selenskí af dögum. TASS fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir Peskóv frá því í morgun að ekki væri auðvelt að koma á fundi milli Pútíns og Selenskís.

Hann hélt því þó fram að heimboð Pútíns til Selenskís snerist ekki um að fá hann til Rússlands til að þvinga hann til uppgjafar, heldur ættu að eiga sér stað viðræður.

Hann sagði Rússa tilbúna til að ná fram markmiðum sínum með friðsömum hætti en ef það væri ómögulegt myndi innrásin halda áfram.

Þá lofaði Peskóv Trump fyrir viðleitni hans til að koma á friði.

Telja Pútín draga lappirnar

Ráðamenn í Evrópu eru sannfærðir um að Pútín hafi engan áhuga á friði að svo stöddu og vilji eingöngu halda stríðsrekstri sínum áfram og í senn grafa undan samheldni á Vesturlöndum um stuðning við Úkraínu. Þeir telja Pútín reyna að draga Trump á asnaeyrunum til að koma í veg fyrir hertar refsiaðgerðir og sérstaklega aðgerðir sem beinist gegn sölu Rússa á jarðeldsneyti, sem er helsta tekjulind rússneska ríksins.

Á ráðstefnunni í morugn sagði Pútín sannfærður um að heimurinn yrði fjölpóla á næstu árum. Er það í samræmi við það sem Xi Jinping, forseti Kína, sagði á stærðarinnar hersýningu þar í landi í vikunni. Hann sagði að heimurinn stæði á krossgötum og miklir umbreytingartímar væru í vændum.


Tengdar fréttir

Vilja gera Úkraínu að tormeltum „stálbroddgelti“

Úkraínumenn hyggja á umfangsmikla hernaðaruppbyggingu sem þeir vonast til að dugi til sem tryggja tilvist og sjálfstæði Úkraínu gegn Rússum í framtíðinni, og hjálpi þeim i að binda enda á núverandi innrás Rússa. Þetta gæti verið besta öryggistrygging Úkraínu, þar sem slíkar tryggingar frá Vesturlöndum virðast ekki ætla að raungerast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×