Viðskipti innlent

Síminn má dreifa efni Sýnar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar. Anton Brink

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur gert Sýn skylt að veita áskrifendum Símans aðgang að öllu sínu línulega efni, þar á meðal Enska boltanum. Taka þarf endanlega ákvörðun í málinu fyrir 1. desember.

Í ágúst komst Fjarskiptastofa að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að Sýn sé skylt að dreifa línulegu sjónvarpsefni inn á lokað kerfi Símans. Sýn mótmælti þeirri niðurstöðu og vísaði málinu til úrskurðanefndar fjarskipta- og póstmála. Í fréttatilkynningu frá Símanum segir að úrskurðanefndin hafni kröfu Sýnar.

Áskrifendur Símans geta því áfram keypt pakka hjá Símanum sem veita aðgang að línulegu íþróttaefni Sýnar ásamt því að horfa á línulega dagskrá á sjónvarpsstöð Sýnar. Hins vegar verður ekki hægt að horfa á streymisveitum SÝN+ og Viaplay eða ólínulegu efni frá Sýn Sport.

„Áhorfendur í nútímasamfélagi vilja hafa val um hvar þeir nálgast sínar útsendingar. Í takt við áherslur um aðgengi og þægindi neytenda voru útsendingar enska boltans aðgengilegar á dreifikerfi Sýnar þegar Síminn hélt á sýningarréttinum. Úrskurður nefndarinnar, sem staðfestir ákvörðun Fjarskiptastofu, er því mikilvægur áfangi bæði fyrir Símann og neytendur,“ er haft eftir Maríu Björk Einarsdóttur, forstjóra Símans í tilkynningunni.

Fjarskiptastofa hefur til 1. desember til að taka endanlega ákvörðun í málinu. 

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×