Erlent

Mót­mæla enn og þrír ráð­herrar segja af sér

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir mótmæltu í Kathmandu í gær.
Þúsundir mótmæltu í Kathmandu í gær. Getty/Anadolu/Sunil Pradhan

Að minnsta kosti nítján létust og yfir 100 særðust í átökum mótmælenda og lögregluyfirvalda í Kathmandu í Nepal í gær. 

Mótmælin standa enn yfir, þrátt fyrir útgöngubann og þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ákveðið í gær að draga til baka bann gegn samfélagsmiðlum á borð við Facebook og YouTube.

Kveikt hefur verið í heimilum nokkurra leiðtoga landsins, meðal annars heimili Bahadur Deuba, fyrrverandi forsætisráðherra. 

Mótmælin brutust út í kjölfar þess að 26 samfélagsmiðlar voru bannaðir á föstudag en þau snúast um annað og meira; ekki síst spillingu og framgöngu barna stjórnamálamanna á samfélagsmiðlum, þar sem þau gefa innsýn inn í lúxuslíf sem er fjarri veruleika flestra íbúa landsins.

Forsætisráðherra landsins, KP Sharma Oli, hefur boðað til fundar í dag og hvatt aðila til að halda aftur af sér.

Ef marka má mótmælendur sem hafa rætt við BBC virðist samfélagsmiðlabannið hafa verið kornið sem fyllti mælinn en jafnvel þótt það hafi beinst gegn miðlunum sjálfum hefur það einnig verið túlkað sem viðleitni stjórnvalda til að þagga niður í óánægjuröddum.

Þrír ráðherrar hafa sagt af sér í gær og í dag, meðal annars innanríkisráðherrann sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það hvernig yfirvöld hafa tekið á mótmælendum. Annar var landbúnaðarráðherrann, sem fordæmdi valdbeintingu yfirvalda gegn mótmælendum.

Táragasi hefur verið skotið að fólki sem hefur safnast saman við þinghúsið í Kathmandu í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×