Innlent

Ruddust inn til manns og mölbrutu í honum tennurnar

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu.
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu. Vísir/Vilhelm

Þrír hafa verið ákærðir fyrir að hafa í félagi ruðst inn í íbúð manns í heimildarleysi í febrúar árið 2023. Einn þeirra er ákærður fyrir að hafa í kjölfarið ráðist á manninn, meðal annars með þeim afleiðingum að tennur hans brotnuðu, í einhverjum tilvikum þannig að aðeins tannrótin var eftir.

Ákæran sem Vísir hefur undir höndum hefur verið rækilega nafnhreinsuð þannig að nöfn, kyn og aldur hinna ákærðu liggur ekki fyrir.

Þó liggur fyrir að brotaþoli í málinu er karlmaður en í ákærunni segir að einn þeirra ákærðu hafi veist að honum með ítrekuðum höggum og spörkum í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann hlaut brot bæði hægra og vinstra megin á kjálka, opið sár við höku vinstra megin, opið sár í munnholi, brot á tönnum þannig að í einhverjum tilvikum var aðeins tannrót eða hluti tannrótar eftir, tannarliðhlaup og langvarandi dofa í vinstri neðri vör.

Ákærurvaldið krefst þess að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Húsbrot varðar allt að eins árs fangelsi og stórfelld líkamsárás allt að sextán ára fangelsi.

Þá er þess krafist fyrir hönd brotaþola að árásarmaðurinn verði dæmdur til að greiða honum miskabætur upp á tvær milljónir króna og kostnað vegna þóknunar réttargæslumanns hans, ellegar lögmannskostnað verði dómurinn ekki við kröfu hans um skipun réttargæslumanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×