Sport

Fljótasta fólk heims er frá Jamaíku og Banda­ríkjunum

Sindri Sverrisson skrifar
Melissa Jefferson-Wooden fagnaði ákaft eftir magnað hlaup sitt í dag þegar hún varð heimsmeistari og setti mótsmet í 100 metra hlaupi.
Melissa Jefferson-Wooden fagnaði ákaft eftir magnað hlaup sitt í dag þegar hún varð heimsmeistari og setti mótsmet í 100 metra hlaupi. Getty/Oliver Weiken

Jamaíka eignaðist gull- og silfurverðlaunahafa í 100 metra hlaupi karla á HM í frjálsíþróttum í Tókýó í dag og einnig silfurverðlaunahafa í 100 metra hlaupi kvenna.

Það var hins vegar hin bandaríska Melissa Jefferson-Wooden, bronsverðlaunahafi frá því á ÓL í fyrra, sem varð heimsmeistari kvenna með afar sannfærandi hætti.

Hún kom langfyrst í mark á nýju mótsmeti, 10,61 sekúndum, eða 15/100 úr sekúndu á undan Tiu Clayton frá Jamaíku. Ólympíumeistarinn Julien Alfred varð svo að sætta sig við bronsið á 10,84 sekúndum.

Í 100 metra hlaupi karla þjófstartaði Letsile Tebogo frá Botsvana og var dæmdur úr keppni. Þegar keppendur störtuðu svo aftur voru það Jamaíkumennirnir sem hlupu hraðast.

Oblique Seville reif bolinn sinn um leið og hann hafði tryggt sér heimsmeistaratitilinn, og fagnaði ber að ofan.Getty/Hannah Peters

Oblique Seville, sem varð í 8. sæti á ÓL í fyrra, vann heimsmeistaratitilinn með því að hlaupa á 9,77 sekúndum. Hann var sjónarmun á undan Kishane Thompson sem líkt og á ÓL varð að sætta sig við silfrið.

Ólympíumeistarinn Noah Lyles varð svo í 3. sæti á 9,89 sekúndum, rétt á undan landa sínum Kenny Bednarek sem fór of hægt af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×