Fótbolti

Sparkað í klofið á liðsfélaga Kol­beins en sætur sigur sóttur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Miðjumaðurinn Kolbeinn Þórðarson hefur spilað í 20 af 23 leikjum Göteborg á tímabilinu. 
Miðjumaðurinn Kolbeinn Þórðarson hefur spilað í 20 af 23 leikjum Göteborg á tímabilinu.  IFK GöTEBORG

Kolbeinn Þórðarson og félagar í Göteborg sóttu mikilvæg þrjú stig með 2-1 sigri á útivelli gegn BK Hacken í 23. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Göteborg hélt leikinn út manni fleiri eftir að leikmaður BK Hacken fékk rautt spjald fyrir að sparka í klof andstæðingsins.

Kolbeinn kom inn af varamannabekknum í seinni hálfleik, þegar rúmur hálftími var eftir. Staðan var þá jöfn en Tobias Heintz átti eftir að skora annað mark til að koma Göteborg yfir um stundarfjórðungi síðar.

Heimamenn BK Hacken reyndu síðan að sækja jöfnunarmarkið en markaskorarinn Mikkel Rygaard gerði sínum mönnum erfitt fyrir með því að næla sér í rautt spjald fyrir að sparka í klof Max Fenger.

Leikurinn endaði því 1-2 fyrir Göteborg, sem er í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir AIK.

AIK vann damatískan 2-1 sigur gegn Brommapojkarna á sama tíma, með sigurmarki á sjöttu mínútu uppbótartíma. Hlynur Freyr Karlsson sat á varamannabekk Brommapojkarna allan tímann líkt og í síðustu fimm leikjum.

Í sænsku kvennadeildinni spilaði Sigdís Eva Bárðardóttir sínar fyrstu fimm mínútur á tímabilinu þegar hún kom inn af varamannabekk Norrköping í 2-0 sigri gegn Djurgarden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×