Erlent

Banna kennslu­bækur eftir konur í há­skólum landsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Afganskar konur hafa verið útilokaðar frá skólum og vinnumarkaðnum eftir að Talíbanar náðu aftur völdum.
Afganskar konur hafa verið útilokaðar frá skólum og vinnumarkaðnum eftir að Talíbanar náðu aftur völdum. Getty

Talíbanastjórnin í Afganistan hefur bannað notkun kennslubóka eftir konur í háskólum landsins, auk þess sem átján fög hafa verið bönnuð. Fögin, sem mörg varða konur, jafnrétti eða mannréttindi, eru sögð ganga gegn trúnni og stefnu stjórnvalda.

Stjórnvöld sendu út lista yfir 680 bækur í lok ágúst sem háskólum er nú bannað að kenna en þeirra á meðal eru 140 eftir konur. Þar má finna titla á borð við „Öryggi í rannsóknarstofunni“.

Þá eru 310 bækur á listanum ýmist eftir íranska höfunda eða útgefnar í Íran en BBC hefur eftir heimildarmanni sem situr í nefndinni sem samdi listann að yfirvöld vilji freista þess að koma í veg fyrir að íranskt efni læðist inn í námskrár Afganistan.

Prófessor sem miðillinn ræddi við segir hins vegar óttast að erfitt verði að fylla upp í gatið sem brotthvarf bókanna 310 býr til, þar sem bækur eftir íranska höfunda og þýðendur séu aðal brúin milli afganskra háskóla og alþjóðlega menntasamfélagsins.

Talíbanastjórnin teygir sig sífellt lengra í að skerða réttindi kvenna í Afganistan en þeim er nú meðal annars bannað að sækja sér nokkra menntun að loknum grunnskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×