Sport

„Hugsa að hann eigi al­veg inni ein­hverja sentí­metra, jafn­vel tíu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórey Edda var margfaldur Íslandsmeistari í stangarstökki.
Þórey Edda var margfaldur Íslandsmeistari í stangarstökki. vísir/getty/stefán

Stangarstökkvarinn fyrrverandi Þórey Edda Elísdóttir segir að afrek Armands Duplantis séu í raun ótrúlegt. Hún telur að hann eigi enn eitthvað inni.

Svíinn magnaði, Duplantis, sló heimsmetið í stangarstökki í fjórtánda sinn á mánudaginn og það á Heimsmeistaramótinu í Tokýó. Hann sló metið fyrst fyrir fimm árum og hefur síðan þá bætt það um þrettán sentímetra. Duplantis varð í vikunni heimsmeistari í stangarstökki í þriðja sinn. Hann lét ekki þar við sitja og setti nýtt heimsmet er hann lyfti sér yfir 6,30 metra. Hann hefur sett fjögur heimsmet á þessu ári. Duplantis sló heimsmetið í fyrsta sinn í Póllandi í febrúar 2020. Hann lyfti sér þá yfir 6,17. Alls hefur Dulpantis bætt heimsmetið um samtals þrettán sentímetra á fimm árum.

„Hann er greinilega mjög góður íþróttamaður. Hann hefur mikinn hraða, mikinn styrk og mjög góða tækni og nær einhvern veginn að nýta þetta allt saman,“ segir Þórey í Sportpakkanum á Sýn.

„Stundum þegar íþróttamenn verða of hraðir í stangarstökki þá ráða þeir ekki við hraðan sinn og ná því ekki að færa hann yfir í tæknina. Hann er búinn að æfa stangarstökk frá því að hann var þriggja ára. Hann hefur góða tækni og mikinn liðleika líka. Þegar maður er kominn í þessa hæð þá er einn sentímetri í bætingu gríðarlega mikið. Það sem er mjög áhugavert í þessu er að hvað hann nær að helda sér heilum og hefur ekki verið að glíma við nein meiðsli,“ segir Þórey og bætir við að Svíinn sé ein stærsta stjarnan í frjálsíþróttaheiminum og í raun sú stærsta frá því að Usain Bolt var enn að.

Hún telur að Duplantis eigi mögulega enn meira inni.

„Ef hann nær áfram að halda sér heilum þá á hann alveg þrjú góð ár í að verða betri. Ég hugsa að hann eigi alveg inni einhverja sentímetra, jafnvel tíu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×