Innlent

Nú­verandi kvikusöfnunartímabil geti dregist á langinn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Síðasta eldgos hófst í júlí og lauk í ágúst.
Síðasta eldgos hófst í júlí og lauk í ágúst. Björn Steinbekk

Landris og kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og hefur verið á stöðugum hraða undanfarnar vikur. Frá síðasta eldgosi sem hófst 16. júlí hafa um tíu milljónir rúmmetra af kviku bæst aftur við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að magnið sem hljóp úr Svartsengi í síðasta eldgosi var áætlað um 11 til 13 milljónir rúmmetra. Neðri mörkum þessa rúmmáls verður náð um helgina haldi söfnunin áfram á sama hraða. Í tilkynningu segir að hættumat sé óbreytt en verði endurmetið á fimmtudag þegar líklegt er að þessum neðri mörkum hefur verið náð.

Reynslan sýni þó að mörkin á því hvenær atburður hefst séu breytileg á milli gosa. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði sé því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil geti dregist á langinn.

Í tilkynningu segir einnig að jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina sé áfram mjög lítil og mælast þar stöku smáskjálftar undir einum að stærð.

„Jarðskjálftavirkni við Kleifarvatn og vestan þess heldur áfram og mælast nokkrir tugir skjálfta þar flesta daga. Meirihluti skjálftanna er smáskjálftar undir M2.0 að stærð. Landsig sem mælist vestan Kleifarvatns mælist áfram á stöðugum hraða,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×