Fótbolti

„Strætó nú­mer 15 stoppar beint fyrir utan KR-völlinn“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Magnús Már er þjálfari Aftureldingar.
Magnús Már er þjálfari Aftureldingar. Vísir/Anton Brink

Afturelding nældi sér í þrjú mikilvæg stig í neðri hluta Bestu deildar karla í dag. Þrjú mörk á sex mínútna kafla skildu liðin að. Með sigrinum lyfti Afturelding sér úr botnsætinu.

„Sigurtilfinningin er alltaf góð og hún er extra sæt í dag því það er langt síðan síðast. Mikið hrós á strákana, frábær trú, við lendum undir og að ná að snúa þessu við og skora þessi mörk í seinni hálfleik. Mér fannst frábært hvernig við spiluðum í dag og sigurinn verðskuldaður,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, ánægður eftir sigur liðsins

KA náði að ýta heimamönnum neðar á völlinn seint í síðari hálfleik en Magnús hafði ekki áhyggjur af því.

„Mér fannst við verja markið okkar vel og þetta er bara eitthvað sem gerist ósjálfrátt þegar þú ert yfir og ert að verja forskotið. Við hefðum mátt spila meira og halda boltanum betur í lokin. Það var hjarta í þessu og við vörðum markið vel, þannig þetta var kærkominn sigur.“

„Mikil orka í stúkunni sem hjálpaði okkur mikið. Frábært að fá bæinn á bakvið okkur. Við elskum að vera í úrslitakeppni í Mosfellsbæ.“

Með sigrinum í dag lyfti Afturelding sér úr botnsætinu og sendi KR á botninn. Næsti leikur þessara liða er næstkomandi laugardag og má búast við alvöru fallbaráttuslag.

„Næsta verkefni er spennandi á móti KR og við þurfum að taka það sem við gerðum vel í dag og flytja það yfir á þann leik. Orkuna og trúna og fá fólkið með okkur. Ég vil sjá sem flesta úr Mosó mæta á KR-völlinn. Strætó númer 15 þræðir allan Mos­fells­bæinn og stoppar beint fyrir utan KR-völlinn þannig það á ekki að vera erfitt fyrir fólk að fara á völlinn. Ég reikna ekki með öðru en að stúkan verði vel rauð í vesturbænum á laugardaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×