Handbolti

Tíu ís­lensk mörk þegar Magdeburg tók bronsið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf fjórar stoðsendingar í sigri Magdeburg í bronsleiknum á HM félagsliða.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf fjórar stoðsendingar í sigri Magdeburg í bronsleiknum á HM félagsliða. getty/Ruben De La Rosa

Magdeburg sigraði Al Ahly frá Egyptalandi örugglega, 32-23, í leiknum um 3. sætið á HM félagsliða í handbolta. Íslendingarnir í liði Evrópumeistaranna skoruðu samtals tíu mörk í leiknum.

Magdeburg tapaði fyrir Veszprém, 23-20, í undanúrslitum keppninnar í fyrradag. Þar með var útséð með að liðið yrði heimsmeistari félagsliða í fjórða sinn á fimm árum. Magdeburg vann keppnina 2021, 2022 og 2023 en lenti í 2. sæti 2024.

Danski línumaðurinn Magnus Saugstrup var markahæstur í liði Magdeburg gegn Al Ahly með sjö mörk. Philipp Weber skoraði sex mörk og Ómar Ingi Magnússon fimm. Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson tvö auk þess sem hann gaf fjórar stoðsendingar.

Magdeburg byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir sautján mínútur leiddi liðið með átta mörkum, 12-4. Sami munur var á liðunum í hálfleik, 19-11. Evrópumeistararnir héldu í horfinu í seinni hálfleik og unnu á endanum níu marka sigur, 32-23.

Í úrslitaleik HM félagsliða í kvöld etur Veszprém kappi við Barcelona. Bjarki Már Elísson mætir þar félaga sínum úr íslenska landsliðinu, Viktori Gísla Hallgrímssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×