Skoðun

Svindl eða sjálfsvernd?

Sigurður Árni Reynisson skrifar

Það hefur lengi verið þekkt að börn skrökvi stundum eða leiti leiða til að komast hjá því að axla ábyrgð. En, þegar við sjáum barn í grunnskóla svindla á prófi og síðan neita að viðurkenna það, þá vaknar önnur spurning. Snýst þetta aðeins um hegðun barnsins eða endurspeglar þetta líka það umhverfi sem við sem menntasamfélag höfum skapað? Á undanförnum árum hafa margir kennarar, foreldrar og fræðimenn velt því fyrir sér hvort áherslan á árangur í skóla sé orðin of mikil. Við tölum um mikilvægi læsis og stærðfræðifærni, við reiknum út árangur í stigum og prósentum og við berum saman börn í hópum og á milli skóla. Það er auðvelt að gleyma því að á bak við þessa mælikvarða eru lifandi einstaklingar sem eru að læra að þekkja sjálfa sig og finna styrkleika sína. Þegar barnið upplifir að það sé dæmt fyrst og fremst út frá tölum og árangri getur það orðið til þess að t.d. svindl virðist einfaldari leið en að horfast í augu við eigin mistök eða veikleika.

Flest börn vilja standa sig vel. Það liggur djúpt í mannlegu eðli að vilja viðurkenningu, hrós og að tilheyra hópnum. Þegar kröfurnar verða hins vegar of miklar, þegar prófið verður mælikvarði á verðleika barnsins, breytist ótti við mistök í yfirþyrmandi afl. Þá verður lygin eða svindlið ekki bara til að ná betri einkunn heldur til að verja sjálfsmyndina. Á miðstigi í grunnskóla, þar sem börn eru að stíga inn í unglingsárin, verður sjálfsmyndin sérstaklega viðkvæm. Það sem áður var saklaus tilraun til að komast undan skömm á yngri árum getur nú orðið kerfisbundið mynstur, það er að fela, að afneita og að grípa til óheiðarleika til að lifa af í krefjandi umhverfi.

Í nútímamenntakerfi er sífellt meiri áhersla lögð á mælanlegar niðurstöður. PISA-próf, lesfimi, samræmd könnunarpróf og lokaeinkunnir eru settar fram sem lykilviðmið. Þó að þessi tæki hafi ákveðið gildi, þá skapa þau líka ákveðna menningu þar sem þættir eins og seigla, forvitni, sköpun og samkennd eru ekki mæld og geta þar með orðið að aukaatriðum. Barn sem finnur fyrir þrýstingi að fá háa einkunn lærir fljótt að reikna út hvað borgar sig. Ef það telur að það hafi ekki getu til að ná árangri á heiðarlegan hátt verður svindlið rökrétt skref. Og þegar það er staðið að verki er neitunin enn eina leiðin til að vernda sig frá því að falla niður í augum annarra.

Við getum ekki einblínt á barnið eitt og sér í þessu samhengi. Börn læra af því sem þau sjá í kringum sig. Þegar þau sjá að fullorðnir forðast að taka ábyrgð, þegar þau skynja að virði fólks sé mælt í afrekum og titlum, þá spegla þau þessa menningu. Við verðum að spyrja okkur, hvaða skilaboð erum við að senda? Leggjum við áherslu á að segja við börnum okkar að það sé í lagi að mistakast? Að próf séu bara æfing eða gefum við þeim til kynna að árangur sé allt sem telji?

Rannsóknir í þroskasálfræði sýna að börn ljúga eða svindla af ýmsum ástæðum. Þau gera það til að forðast refsingar, ná umbun eða viðurkenningu, vegna hópþrýstings eða einfaldlega vegna þess að þau hafa lært að slík hegðun borgar sig. Kang Lee, prófessor í sálfræði við Háskólann í Torontó, Kanada bendir á í yfirlitsgrein sinni, að börn þróa með aldrinum bæði hugræna færni og félagslegan skilning, sem gerir þeim kleift að nota lygi sem meðvitað tæki til að verja sjálfsmynd sína og aðlagast kröfum umhverfisins (Lee, 2013). Þegar við skoðum þessar ástæður nánar, sjáum við að flestar þeirra tengjast menningu sem leggur of mikla áherslu á árangur, refsingu og samanburð og of litlu á að kenna heiðarleika, seiglu og sjálfstraust.

Ef við viljum minnka líkur á því að barn upplifi að óheiðaleiki borgi sig og auka vilja þeirra til að axla ábyrgð, þurfum við að skapa annað andrúmsloft í skólum. Það er ekki nóg að setja strangari reglur eða beita harðari refsingu. Við þurfum að vinna með undirliggjandi ástæður. Börn þurfa að vita að þau geti sagt satt, jafnvel þótt mistök hafi orðið, án þess að það kosti virðingu þeirra. Við verðum að endurskilgreina árangur svo að tölur og próf ráði ekki ferðinni. Við verðum að gefa seiglu, forvitni og samvinnu jafn mikla athygli. Við þurfum að kenna heiðarleika sem gildi og leyfa mistökum að vera hluti af náminu. Ef próf eru sett fram sem tækifæri til að læra, en ekki aðeins sem mælikvarði á getu, minnkar þrýstingurinn.

Þegar barn í grunnskóla svindlar á prófi og vill ekki viðurkenna það er það ekki aðeins persónulegt vandamál barnsins. Það er merki um samfélag sem setur of mikla áherslu á árangur og of lítið á traust og heiðarleika. Við þurfum að endurskoða kröfurnar sem við setjum á börnin okkar. Ef við viljum ala upp börn sem læra af mistökum, sem treysta sjálfum sér og öðrum, þá verðum við að skapa menningu þar sem þau mega vera mannleg. Þar sem þau mega mistakast og þar sem þau læra að heiðarleiki skilar meira en nokkur einkunn getur gert.

Höfundur er mannvinur og kennari.

Heimild:

Lee, K. (2013). Little liars: Development of verbal deception in children. Child Development Perspectives, 7(2), 91–96. https://doi.org/10.1111/cdep.12023




Skoðun

Sjá meira


×