Innlent

Starfs­maður á Brákarborg grunaður um kyn­ferðis­brot

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Framkvæmdir hafa staðið yfir í lengri tíma við Brákarborg eftir að í ljós kom að þak á skólanum var vanhannað. Stefnt var á að leikskólastarf hæfist í skólanum í október.
Framkvæmdir hafa staðið yfir í lengri tíma við Brákarborg eftir að í ljós kom að þak á skólanum var vanhannað. Stefnt var á að leikskólastarf hæfist í skólanum í október. Vísir/Anton Brink

Leikskólastarfsmaður sem var handtekinn í síðustu viku grunaður um kynferðisbrot gegn barni er starfsmaður á leikskólanum Brákarborg við Kleppsveg í Reykjavík. Foreldrar hafa verið boðaðir til fundar með fulltrúum lögreglu síðdegis.

RÚV greinir frá og segir foreldra ekki hafa upplýsta um málið fyrr en eftir fréttaflutning miðilsins af málinu í hádeginu í dag. Þá fyrst hafi Reykjavíkurborg sent tölvupóst á foreldra barna við skólann.

Þar segir að málið hafi verið á borði Reykjavíkurborgar síðan í lok september. Hinn grunaði hafi ekki komið til starfa síðan hann var handtekinn af lögreglu. Honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu og þótti lögreglu ekki tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald.

María Björnsdóttir, leikskólastjóri á Brákarborg, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu. 

Brákarborg  hefur verið töluvert til umfjöllunar undanfarin ár vegna tilfærslu á starfsemi skólans úr Brákarsundi í húsnæði við Kleppsveg þar sem kynlífstækjabúðin Adam og Eva var áður til húsa. Málin flæktust þegar í ljós kom að þak á skólanum var ekki nógu vel hannað. Starfsemin er nú öll sem stendur í Brákarsundi. 

Starfsmaður á leikskólanum Múlaborg, sem einnig stendur við Ármúla, er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á fleiri en tíu börnum. Hann sætir gæsluvarðhaldi og hefur gert í sjö vikur.

Sögðu ekkert að beiðni lögreglu

„Við skiljum mjög vel að fréttir eins og bárust ykkur rétt í þessu séu mikið áfall fyrir ykkur að lesa og það er eðlilegt að upplifa áhyggjur og hræðslu,“ segir í tölvupósti til foreldra. Þar er vísað á bækling með stuðningi við aðstandendur barns þegar grunur kviknar um kynferðisofbeldi eða áreitni. Bæði er varðað algeng viðbrögð og líðan en einnig ráð sem gott er að hafa í huga áður en rætt sé við börn sín.

„Við viljum ítreka að viðkomandi starfsmaður er ekki í haldi lögreglu og er og verður ekki að störfum á meðan rannsókn málsins stendur. Að beiðni lögreglu sendum við ekki upplýsingar um málið með rannsóknarhagsmuni að leiðarljósi en mál af þessu tagi eru mjög viðkvæm. Málin flækjast þegar þau birtast í fjölmiðlum og því töldum við rétt að upplýsa ykkur um málið áður en það birtist frétt um það á RÚV. Við biðjum ykkur að hafa í huga að við höfum engar frekari upplýsingar um málið og höfum heldur ekki heimild til að upplýsa vegna rannsóknarhagsmuna.“

Aðilar frá skóla- og frístundaviði verða í leikskólanum eftir hádegi í dag til að styðja við leikskólann og svara spurningum foreldra. Foreldrum er boðað til fundar klukkan 17 í dag þar sem fulltrúar lögreglu mæta ásamt fulltrúum frá skóla og frístundasviði.

Fréttin er í vinnslu.


Veistu meira um málin? Eða ertu með fréttnæma ábendingu? Sendu línu á ritstjorn@visir.is. Þú getur einnig sent okkur nafnlaust fréttaskot hér. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×