Íslenski boltinn

Fékk yfir sig vatns­gusu: „Fagna þessu á Gus Gus á morgun“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nik Chamberlain fagnar sigri kvöldsins.
Nik Chamberlain fagnar sigri kvöldsins. Vísir/Ernir

„Þetta er brilljant. Þetta mun líklega ekki komast inn fyrr en á morgun. En þetta er frábært,“ segir Nik Chamberlain, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, sem tryggði sér titilinn með sigri á Víkingi í kvöld.

Nik var kokhraustur fyrir leik og tjáði blaðamanni að allt væri þegar þrennt er. Breiðablik hafði tapað tveimur leikjum í röð þar sem titillinn var undir og hafði áður tapað tveimur bikarúrslitaleikjum í röð áður en sá titill vannst í sumar.

Klippa: Nik var viss um að þetta myndi takast

Sama mantra var til staðar í kvöld og hann hafði rétt fyrir sér.

„Allt er þegar þrennt er. Það er eitthvað í þessu. Það var betri tilfinning komandi inn í leik dagsins heldur en hina. Ég talaði við leikmenn í gær og tilfinningin var betri,“ segir Nik.

En þú varst nú eitthvað stressaður - viðurkenndu það.

„Það var stress fyrir leikina við Stjörnuna og Þrótt um að koma þessu yfir línuna. En í dag var betri ára í kringum hópinn. Svo er líka alltaf betra að vinna þetta á heimavelli,“ segir Nik.

„Ég verð að hrósa stelpunum. Að koma til baka eftir að hafa lent tvisvar undir í kvöld, með í huga að við töpuðum tveimur leikjum á undan, þær hefðu getað misst hausinn en þessi hópur – þær eru sigurvegarar,“ bætir Nik við.

Nik fékk svo vatnsgusu yfir sig í miðju viðtalinu, eftir um 90 sekúndur, frá Barbáru Sól Gísladóttur. „Það er eins gott að þetta sé bara vatn,“ sagði hann léttur.

Varðandi fagnaðarlæti fær leikmannahópurinn að gera sér glaðan dag en Nik sjálfur hvílir sig fyrir morgundaginn.

„Þær gætu fagnað í kvöld en ég er að fara á Gus Gus tónleika á morgun. Ég fagna þessu þar,“ segir Nik léttur.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×