Sport

Guð­mundur Flóki sótti þriðju gull­verð­launin í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Landsliðið gerði sér góða ferð til Riga í Lettlandi.
Landsliðið gerði sér góða ferð til Riga í Lettlandi. TKÍ

Landslið Íslands í taekwondo tók þátt í tveimur alþjóðlegum mótum í Riga í Lettlandi um helgina. Guðmundur Flóki Sigurjónsson vann bæði mótin og sótti þar með sín þriðju gullverðlaun á árinu.

Guðmundur Flóki keppti á báðum mótum sem fóru fram í Riga, evrópska smáþjóðamótinu og opna mótinu, og vann þau bæði.

Mótin voru bæði í lægsta styrkleikaflokki alþjóðlegra móta en árangurinn alls ekki amalegur hjá hinum unga Guðmundi, sem keppir í fullorðinsflokki þrátt fyrir að vera aðeins sautján ára gamall.

Hann hefur nú unnið þrjú gullverðlaun í röð, og fjögur verðlaun á árinu eftir að hafa sótt brons á móti í Lúxemborg í byrjun árs.

Landsliðið var einnig skipað Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur og Leo Anthony Speight. Ingibjörg er að stíga upp úr meiðslum en vann silfurverðlaun á báðum mótum og var hársbreidd frá gullinu. Leo Anthony vann silfur á evrópska smáþjóðamótinu.

Guðmundur og Ingibjörg ánægð með gullverðlaunin. TKÍ

Ísland er því fimm verðlaunapeningum ríkari eftir ferð landsliðsins til Riga.

„Ótrúlegur árangur og greinilegt að okkar fólk er á mjög réttri leið“ segir í tilkynningu Taekwondosambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×