Innlent

Á­kærður fyrir stunguárás á Sel­tjarnar­nesi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Meintar árásir eru sagðar hafa átt sér stað við íþróttahús á Seltjarnarnesi. Myndin er úr safni.
Meintar árásir eru sagðar hafa átt sér stað við íþróttahús á Seltjarnarnesi. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að stinga mann við íþróttahús á Seltjarnarnesi og fyrir að ráðast á annan mann á sama stað skömmu áður. Atvikin sem málið varðar munu hafa átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 29. ágúst 2021.

Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum er manninum gefið að sök að hafa ráðist á mann með því að slá hann með krepptum hnefa í höfuð. Sá sem varð fyrir árásinni hafi fyrir vikið fallið aftur fyrir sig í götuna, og hlotið beinbrot á hendi og aðra minni áverka.

Í kjölfarið er árásarmaðurinn sagður hafa slegið mann, annan en þann sem varð fyrir fyrri árásinni, hnefahöggi í höfuð og svo stungið hann einu sinni með hnífi í vinstri síðu.

Fyrir vikið hafi sá sem varð fyrir árásinni hlotið „langan og djúpan gapandi skurð á bakvegg brjóstkassa með seytlandi blæðingu út frá skornum bakbreiðavöðva og einhliða lungnamar.“

Þess má geta að fyrir þessa síðari árás er maðurinn ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, en ekki tilraun til manndráps, líkt og stundum þegar um meinta stunguárás er að ræða.

Þess er krafist, fyrir hönd beggja brotaþolanna, að árásarmaðurinn greiði þeim hvorum um sig 2,6 milljónir króna auk vaxta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×