Sport

Sektaður um tólf milljónir fyrir að lesa yfir eigin leik­manni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Gannon var allt annað en sáttur enda fór svo að Arizona Cardinals missti frá sér sigurinn á móti Tennessee Titans.
Jonathan Gannon var allt annað en sáttur enda fór svo að Arizona Cardinals missti frá sér sigurinn á móti Tennessee Titans. Getty/Norm Hall

Þjálfari Arizona Cardinals missti sig algjörlega á hliðarlínunni um helgina eftir eitt mesta klúður ársins. Hann baðst afsökunar en var samt sketaður af félagi sínu.

Forráðamenn Arizona Cardinals hafa ákveðið að sekta þjálfara sinn Jonathan Gannon um hundrað þúsund Bandaríkjadali eða meira en tólf milljónir í íslenskum krónum. ESPN segir frá.

Ástæðan er framkoma hans gegn einum leikmanni sínum í tapleik á móti Tennessee Titans á sunnudaginn.

Hlauparinn Emari Demercado var aleinn og um það bil að hlaupa yfir endalínuna til að skora snertimark þegar hann sleppti boltanum í einhverjum töffaraskap.

Dómararnir komust að því að hann hafði misst boltann áður en hann komst í markið. Cardinals hefði innsiglað sigurinn með þessu snertimarki en þess í stað missti liðið sjö stig og boltann.

Tennessee Titans nýtti sér þetta, sneri við leiknum og tryggði sér endurkomusigur.

Áður en að þeirri endurkomu kom þá trompaðist Jonathan Gannon þjálfari Cardinals á hliðarlínunni.

Hann strunsaði til Demercado sem var algjörlega miður sín. Það breytti ekki því að Gannan fór alveg upp að honum og las honum pistilinn. Hann hélt áfram reiðilestrinum þegar hann byrjaði að ganga frá Demercado og virtist snerta hægri handlegg hlauparans.

Á mánudaginn sagði Gannon að hann hefði beðið Demercado og leikmenn Cardinals afsökunar á liðsfundi þann daginn. „Ég sagði þeim bara að ég hefði látið augnablikið ná tökum á mér þarna,“ sagði Gannon.

Gannon verður fyrsti aðalþjálfari NFL sem er sektaður fyrir deilur við leikmann síðan deildin sektaði þáverandi þjálfara Tampa Bay Buccaneers, Bruce Arians, um fimmtíu þúsund dollara fyrir að slá með hendinni í hjálm öryggisvarðarins Andrew Adams í umspilsleik í janúar 2022 gegn Philadelphia Eagles.

Mistök Demercado reyndust dýrkeypt í 22-21 tapi Arizona.

Hefði hann skorað hefði snertimarkið og aukastigið komið Arizona í 28-6 forystu þegar um 12:40 mínútur voru eftir af fjórða leikhluta. Lið með 22 stiga forystu í fjórða leikhluta hafa unnið 1.276 leiki og tapað 1 á síðustu 25 tímabilum, samkvæmt rannsóknum ESPN.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×