Fótbolti

Alsír tuttugasta þjóðin inn á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Riyad Mahrez er stærsta stjarna Alsír.
Riyad Mahrez er stærsta stjarna Alsír. Getty/Ulrik Pedersen

Á meðan að strákarnir okkar í íslenska fótboltalandsliðinu undirbúa stórleikinn við Úkraínu annað kvöld, í baráttu sinni um sæti á HM 2026, eru tuttugu þjóðir þegar búnar að tryggja sér farseðilinn á mótið.

Alsír varð í dag tuttugasta þjóðin til að ná HM-sæti og verður því með á HM í fyrsta sinn frá því árið 2014. Enn eru 28 sæti laus á mótinu því það hefur verið stækkað og taka nú 48 þjóðir þátt í stað 32 áður.

Alsír vann Sómalíu á útivelli í dag, 3-0, og er því með fjögurra stiga forskot á Úganda á toppi G-riðils í undankeppninni í Afríku, þegar aðeins ein umferð er eftir.

Mohamed Amoura, framherji Wolfsburg, skoraði tvö marka Alsír í dag og hinn 34 ára gamli Riyad Mahrez, leikmaður Al Ahli en áður Manchester City og Leicester, skoraði eitt mark.

Í gær tryggði Egyptaland sig inn á HM og eru fjórar Afríkuþjóðir nú komnar inn á mótið því áður höfðu Túnis og Marokkó tryggt sér farseðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×