Viðskipti innlent

Loðnuráðgjöf góðar fréttir en bíður með flug­elda­sýninguna

Árni Sæberg skrifar
Daði Már fagnar því að Hafró leggi til veiðar á loðnu.
Daði Már fagnar því að Hafró leggi til veiðar á loðnu. Vísir/Anton Brink

Fjármála- og efnahagsráðherra fagnar loðnuráðgjöf upp á 44 þúsund tonn en segist þó ætla að bíða með allar meiri háttar flugeldasýningar þar til í ljós kemur hversu stór stofninn er.

Hafrannsóknastofnun lagði í morgun til að loðnukvóti verði að hámarki tæp 44 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2025 til 2026. Ráðgjöfin byggir á mælingum á loðnustofninum sem voru gerðar í síðasta mánuði. Endurmeta á ráðgjöfina eftir áramót.

„Þetta er auðvitað mjög lítið magn en það er auðvitað gleðilegt að það sé einhver veiði, í upphafi. Ég held að upp á það að finna meiri loðnu, þá er þetta algjörlega krítískt. Þannig að þetta eru gleðilegar fréttir. Ég ætla að bíða með allar meiri háttar flugeldasýningar þangað til að við sjáum aðeins betur hvað stofninn er stór,“ sagði Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar Vésteinn Örn Pétursson fréttamaður ræddi við hann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Reikna ekki með loðnu

Loðnuráðgjöfin var gefin út aðeins nokkrum dögum eftir að Alþjóðahafrannsóknarráðið birti ráðgjöf um veiðar á norsk-íslenskri vorgotssíld, makríl og kolmunna fyrir næsta ár.

Ráðið leggur til 70 prósent minni veiðar á makríl en í ár og 41 prósent minni veiði á kolmunna. Aftur á móti er þriðjungshækkun ráðlögð í veiðum á síldinni. Útlit er fyrir tugmilljarða tekjusamdrátt hjá uppsjávarfyrirtækjum vegna ráðgjafarinnar.

Daði Már segir ráðleggingu um tiltölulega lítið magn loðnu ofan í brest í makríl og kolmunna ekki vera sérstakt áhyggjuefni fyrir þjóðarbúið.

„Við til dæmis í okkar hagspám gerum ekki ráð fyrir loðnuvertíðum. Þær hafa verið svo stopular að það er ekki talið ráðlegt að reikna með þeim. Þannig að þetta eru góðar fréttir miðað við það sem við óttuðumst. Ég vil líka taka fram að þrátt fyrir niðurskurðinn í kolmunna og makríl, þá var töluverð aukning í síld, sem þýðir að þetta gæti ekki komið á betri tíma. Við fáum þrátt fyrir allt upphafsráðgjöf sem er þó svona veruleg, 44 þúsund ton  er töluvert, þó að það sé þetta ekki neitt í samlíkingu við verulega góða loðnuvertíð. En sjáum nú til hvernig þessu vindur fram.“

Gæti orðið talsvert meira

Sem áður segir verður ráðgjöf Hafró endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2026.

Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að heildamagn loðnu hafi mælst 1209 þúsund tonn og þar af hafi stærð kynþroskahluta stofnsins verið 418 þúsund tonn. Þessar niðurstöður bergmálsmælinga og að teknu tilliti til niðurstaðna afránslíkans þýði að með afla upp á 65.650 tonn náist markmið gildandi aflareglu um að skilja eftir að lágmarki 114 þúsund tonn til hrygningar með 95 prósenta líkum. 

Í varúðarskyni miðist milliráðgjöf sem nú er gefin út við tvo þriðju af þeim afla, eða 43.766 tonn.

Magn ókynþroska í fjölda hafi verið um 119 milljarðar, sem sé fimmta hæsta mæling á ungloðnu síðan mælingar hófust og bendi til þess að 2024 árgangurinn sé stór. Árgangurinn sé af svipaðri stærðargráðu og 2019 árgangurinn, sem gaf mikinn afla vertíðarnar 2021/22 og 2022/23. 

Þessar niðurstöður muni liggja til grundvallar á ráðgjöf um upphafsaflamark fyrir næsta fiskveiðiár (2026/2027) sem Alþjóðahafrannsóknaráðið gefi út í júní á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×