Handbolti

Daníel meiddist við myndbandsgerð fyrir HSÍ

Árni Jóhannsson skrifar
Daníel Þór Ingason fyrir miðju í leik með íslenska landsliðinu.
Daníel Þór Ingason fyrir miðju í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Andri Marinó

ÍBV naut ekki krafta Daníels Þórs Ingasonar þegar liðið tapaði fyrir Haukum með 10 marka mun fyrr í dag í Olís deild karla. Daníel varð fyrir meiðslu þegar HSÍ vann að gerð myndbands fyrir markaðsefni deildarinna.

Handkastið.net greindi frá þessu í kvöld en Daníel staðfesti tildrög meiðslanna við miðilinn. Daníel átti þá að taka þátt í leik sem átti að vera tekinn upp þar sem hann átti að hoppa yfir annan leikmann ÍBV án þess að vita að leikmaðurinn myndi beygja sig undan hoppinu. Daníel tók þá byltu og lenti harkalega á hægri öxl sinni á parketi íþróttahússins og meiddist alvarlega.

Daníel sagði í samtali við Handkastið að hann væri búinn að fara í myndatöku og biði nú eftir niðurstöðum úr henni. Hann gerði ráð fyrir því að vera frá í einhvern tíma án þess að vita nákvæmlega hversu lengi hann myndi vera frá.

Erlingur Richardson var að vonum ekki par sáttur við það að leikmaður hans væri meiddur og hvernig meiðslin bar að. Hann var til viðtals hjá mbl.is þar sem hann sagði meðal annars að meiðsli Daníels hefðu líklega verið áfall fyrir hópinn hjá ÍBV sem væri mögulega ein af ástæðum fyrir stærð tapsins gegn Haukum í dag.

„Við þurfum bara að sjá hvað kemur út úr niðurstöðum, HSÍ hlýtur að sjá til þess að hann fái rétta meðhöndlun og sem fyrst,“ sagði Erlingur um aðkomu HSÍ að meiðslum þessa lykilmanns í varnarleik ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×