Sport

Alexander mætir Luke Littler á HM ung­menna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler vann World Grand Prix, einn stærsta titil sem í boði er í píluheiminum, í gær. Í dag keppir hann á HM ungmenna og er í riðli með Alexander Veigari Þorvaldssyni.
Luke Littler vann World Grand Prix, einn stærsta titil sem í boði er í píluheiminum, í gær. Í dag keppir hann á HM ungmenna og er í riðli með Alexander Veigari Þorvaldssyni. vísir/getty/sýn sport

Grindvíkingurinn Alexander Veigar Þorvaldsson er í riðli með heimsmeistaranum Luke Littler á HM ungmenna í pílukasti. Þeir mætast í dag.

Í gærkvöldi vann Littler World Grand Prix í fyrsta sinn. Hann rúllaði yfir Luke Humphries í úrslitaleiknum, 6-1.

Það er skammt stórra högga á milli hjá heimsmeistaranum því í dag keppir hann á HM ungmenna (16-23 ára). Og þar er hann í riðli með Alexander.

Fyrri umferðir HM fara fram án áhorfenda en úrslitaleikurinn verður sýndur í sjónvarpi samhliða stóru móti fyrir fullorðna.

Littler vann HM ungmenna 2023, skömmu áður en hann fór alla leið í úrslit á HM fullorðinna, þá aðeins sextán ára. Hann tók ekki þátt á HM ungmenna í fyrra, þar sem Gian van Veen stóð uppi sem sigurvegari, en vann HM fullorðinna.

Littler hefur stimplað sig inn sem einn allra besti pílukastari heims en samt ætlar hann að keppa með efnilegum pílukösturum á HM ungmenna sem fer fram í Wigan á Englandi.

Alls er keppt í 32 fjögurra manna riðlum á HM ungmenna. Tveir efstu í hverjum riðli komast í 64-manna úrslit.

Auk þess að vera einn fremsti pílukastari landsins spilar Alexander með körfuboltaliði Grindavíkur. Hann var ekki í hóp hjá liðinu þegar það vann ÍA, 116-99, á fimmtudaginn enda upptekinn við pílukastið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×